Óhætt er að segja að vikan sem nú er á enda hafi verið viðburðarík á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar. Í viku sem innihélt tvö yfirtökutilboð, mestu lækkun á einum degi frá hruni og miklar sveiflur lækkaði úrvalsvísitalan þegar upp var staðið um 5,8% í alls 34,3 milljarða viðskiptum.

Mest hækkun varð á bréfum Eimskips og Heimavalla sem hækkuðu um 9,8 og 8,1%. Á mánudagskvöld gerði norska félagið Fredensborg AS, 17 milljarða yfirtökutilboð í Heimavelli og voru daginn eftir var hlutur Norðmannanna orðin um 75% en stefnt er að því að afskrá leigufélagið úr Kauphöllinni.

Á þriðjudagskvöld hafði Samherji Holdings svo aukið hlut sinn í Eimskip um 3,05% upp í samtals 30,11% og við það myndaðist yfirtökuskylda. Í tilkynningu frá Samherja kom þó fram að markmiðið væri ekki afskrá félagið heldur sýndu kaupinn þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips.

Lítið þarf að koma á óvart að mest lækkun vikunnar var á bréfum Icelandair Group sem lækkuðu um 20,8% í 786 milljóna viðskiptum. Mikil fjöldi viðskipta átti sér stað með bréf félagsins en þau voru 686 talsins sem jafngildir meðalstærð viðskipta upp á rúmlega 1,1 milljón króna.

Fyrir utan Icelandair lækkuðu bréf Arion banka og Sýnar um 15,3% auk þess sem bréf Iceland Seafood lækkuðu um 13,9%.

Rétti úr kútnum í dag

Þegar litið er á viðskipti dagsins í dag var bjartara yfir markaðnum. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,3% í tæplega 3,2 milljarða viðskiptum.

Mest hækkun varð á bréfum Icelandair eða 8,8% í 161 milljóna viðskiptum sem voru 172 talsins. Þá hækkuðu bréf Brim um 8,5% í 51 milljóna viðskiptum og bréf Iceland Seafood um 6,9% í 50 milljóna viðskiptum.