Það sem af er ári hefur verið fremur dauft á hlutabréfamarkaði, einkum nú á síðari árshelmingi. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur verið í lækkunarhrinu frá því í byrjun maí og hefur velta á hlutabréfamarkaði verið lítil undanfarnar vikur. Víða kveður við svipaðan tón hjá þeim markaðsaðilum og greiningaraðilum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um stöðuna á hlutabréfamarkaðnum. Segja þeir markaðinn einkennast af biðstöðu og hugsanlegri taugaveiklun, en að sveiflur á gengi bréfa séu ýktar vegna þess hve grunnur markaðurinn er.

Ódýr markaður

Eftir hækkanir á hlutabréfamarkaði í apríl hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar verið á niðurleið síðan í byrjun maímánaðar. Vísitalan hefur lækkað um tæplega 16% frá hápunkti sínum þann 9. maí síðastliðinn og hefur lítið lát verið á lækkunarhrinunni síðan þá.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja nokkrar ástæður fyrir því að fjárfestar hafi verið að selja hlutabréf undanfarnar vikur. Vísbendingar séu um að hægst hafi á vexti hagkerfisins og að fjárfestar séu að draga upp dekkri mynd af ferðaþjónustunni en áður. Gengi krónunnar sveiflaðist eins og lauf gagnvart helstu viðskiptamyntum yfir sumarið. Ávöxtunarkrafan á skuldabréfamarkaði hefur einnig hækkað og þá hafa átt sér stað sviptingar á smásölumarkaði sem hafa knúið fram umfangsmikla hagræðingu hjá innlendum fyrirtækjum vegna aukinnar samkeppni. Allt hefur þetta stuðlað að því að fjárfestar telja sig vita minna um framtíðina en áður. Eftirspurn eftir hlutabréfum hefur því minnkað, en velta á hlutabréfamarkaði hefur verið lítil síðastliðnar vikur.

Ofan á þetta hefur pólitísk óvissa og áhyggjur af minni stöð­ ugleika í hagstjórninni valdið titringi á mörkuðum í kjölfar þess að tilkynnt var um slit á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíð­ar fyrir um tveimur vikum síðan. Í slíku óvissuástandi telja aðilar á markaði að verðþróun hlutabréfa verði í auknum mæli fréttadrifin.

Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja stemninguna á hlutabréfamarkaði einkennast af biðstöðu og jafnvel taugaveiklun. Markaðsaðilar séu að meta stöðu mála í þjóðarbúinu, en að á sama tíma sé hlutabréfamarkaðurinn 20-30% undirverðlagður. Þeir benda á að þó söluþrýstingurinn á hlutabréfamarkaði eigi sér eðlilegar skýringar geti umfang verðbreytinga á markaðnum vart talist eðlilegt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .