Sjávarútvegsfyrirtækið Stormur Seafood hefur keypt fiskvinnslu Blátúns ehf. í Hafnarfirði.

„Kaupverðið er trúnaðarmál,“ segir Halldór Leifsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood, í samtali við Morgunblaðið, en við kaupin var meðal annars horft til staðsetningar og hversu vel tækjum búin fiskvinnslan er.

Á mbl.is kemur fram að Stormur Seafood hafi komist í fréttirnar á síðasta ári þegar ráðherrar í ríkisstjórn létu kanna lögmæti eignarhalds þess. Þá kom það fram að fjölskylda sem búsett er í Kína á 43% hlut í fyrirtækinu í gegnum eignarhaldsfélög.