Veðurstofa Íslands hefur varað við stormi eða roki á landinu í dag og mikilli rigningu sunnanlands.

Þannig hljómar spá Veðurstofunnar sem gefin var út kl. 04:

Vaxandi SA-átt 23-28 m/s með morgninum um landið vestanvert, hvassast um og fyrir hádegi. Einnig versnandi veður austan- og norðaustanlands um miðjan dag. Víða rigning og mikil rigning sunnan- og suðaustanlands. Hlýnandi og hiti 4 til 8 stig síðar í dag. Vestantil lægir lítið eitt síðdegis, en snýst í SV 20-25 m/s með éljum suðvestalands í kvöld og nótt en eystra gengur vindur niður nærri miðnætti og styttir jafnframt upp.

Veðurstofan spáir heldur hvassari sunnanátt með rigningu á gamlárskvöld, með slyddu sunnan- og vestanlands.

Þá hefur samhæfingarstöðin í Skógarhlíð verið virkjuð í nótt og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið í viðbragsstöðu.

Þeim tilmælum er beint til almennings að gæta að niðurföllum og fergja lausa muni. Ábyrgðamenn fyrir áramótabrennum eru beðnir um að huga að þeim vegna mögulegs foks.