Sveitarfélagið Langanesbyggð, þýska félagið Bremenports og verkfræðistofan Efla hafa gert með sér samstarfssamning um þróun og uppbygginu stórskipahafnar í Finnafirði. Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggði, segir í samtali við Rúv að líkurnar á að stórskipahöfn verði að veruleika í Finnafirði hafi stóraukist.

„Það er alveg morgunljóst að þegar menn skrifa undir svona samning þá gera þeir það af því að þeir eru búnir að öðlast mikla trú á því að það geti eitthvað gerst í Finnafirði. Svo veit maður náttúrulega aldrei hvað gerist í framtíðinni, en þetta stóreykur líkurnar,” segir Elías í samtali við Rúv.

Þróunarfélagið mun fá nafnið FFPD og er því falið að afla sérleyfishafa til að hefja starfsemi innan svæðisins. Í fréttatilkynningu frá Langanesbyggð segir að Bremenports fari með 66% í félaginu, Efla 26% og sveitarfélögin 8%. Þá verði einnig stofnað rekstrarfélag hafnarinnar sem verði í fullri í eigu Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps.

Stórskipahöfnin í Finnafirði mun vera iðnaðar- og þjónustusvæði og tengja saman Asíu, Bandaríkin og Evrópu ef siglingaleiðin til Asíu um norður heimskautshafið opnast.  Elías segir einn möguleikan vera í umskipun þar sem förum úr mjög stórum skipum yrði umskipað í smærri skip.