Það sló í brýnu á milli leikkonunnar Gwyneth Paltrow og ofurfyrirsætunnar Kate Moss í nokkurra daga sextugsafmælisveislu breska auðkýfingsins sir Philip Green. Eins og áður hefur verið greint frá fagnaði Green, sem er fyrrverandi viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, afmæli sínu á lúxushóteli í Mexikó í síðustu viku. Veislan stóð yfir frá þriðjudegi og fram á föstudagskvöld. Tæplega 200 manns var boðið til veislunnar í Bretlandi og flaug Green með gesti sína frá Luton-flugvelli til Mexíkó og borgaði undir þá næturgistingu í nokkra daga.

Gwyneth Paltrow
Gwyneth Paltrow

Afmælisveislan, sem er talin hafa kostað á bilinu 6 til 6,5 milljónir punda, allt upp undir 1,3 milljarða íslenskra króna. Breskir fjölmiðlar hafa margir hverjir birt langar lýsingar á afmælisveislunni en Green bauð til sín mörgum stórstjörnum, bæði leikurum, tónlistarmönnum og fyrirsætum ásamt breskum auðmönnum. Breska dagblaðið Mirror birti myndir af þeim Naomi Campell og Leonardo DiCaprio ásamt fleirum í strandblaki.

Breska götublaðið Sun lýsir ósætti leikonunnar og fyrirsætunnar með þeim hætti að Paltrow hafi verið að hlaupa á ströndinni við hótelið. Kate Moss lá þar og gæddi sér á snakki. Þegar Paltow var komin nálægt Moss kallaði hún til leikkonunnar og spurði til hvers hún væri að skokka þetta. Paltrow mun hafa svarað því til, að það gerði hún til að forðast að líta út eins og fyrirsætan þegar hún verði eldri. Það mun Moss hafa mislíkað, hreytt ónotum í leikkonuna og hent í hana snakki. Upphlaupið mun hafa verið eitt af umræðuefnunum í afmælinu, að sögn Sun.

Kate Moss
Kate Moss

Philip Green á bresku verslanasamstæðuna Arcadia. Hann vann að yfirtöku samstæðunnar með Jóni Ásgeiri árið 2002 en keypti hlut Jón Ásgeirs eftir að lögregla gerði húsleit í skrifstofum Baugs sama ár. Þeir Jón Ásgeir og Green hafa síðan þá unnið saman. Green kom hingað til lands í bankahruninu og ræddi m.a. við viðskiptaráðherra í október árið 2008.