Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, opnar stórsýninguna Austurland 2004 í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðun kl 17 í dag. Sýningin er ein stærsta sýning sem haldin verður á landinu í ár og langstærsta sýning sem nokkru sinni hefur verið haldin á Austurlandi.

Á Austurland 2004 sýna 128 einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir starfsemi sína í tæplega 100 sýningarbásum. Sýningarsvæðið er samtals um 2.000 fermetrar; 1.500 fermetra innisvæði og 500 fermetra útisvæði. Búist er við um 8 þúsund gestum á sýninguna og þeirra á meðal verða forseti Íslands og forsetafrú, alþingismenn Norðausturkjördæmis, ráðherrar, forystumenn ýmissa hagsmunasamtaka á Íslandi og sveitarstjórnarmenn á Austurlandi.

Sýnendur á Austurland 2004 eru allir með starfsemi á Austurlandi og koma vítt og breitt að úr fjórðungnum en á sýningunni verður hægt að skoða starfsemi úr flestum atvinnugreinum sem stundaðar eru á Austurlandi.

Áberandi er áhugi stórra fyrirtækja sem starfa á landsvísu og greinilegt að þau telja mjög mikilvægt að gera sig sýnileg á Austurlandi. Engu minni er áhugi rótgróinna heimafyrirtækja og mikið um að fyrirtæki eru að kynna nýjungar og kröftuga uppbyggingu.

Í tengslum við Austurland 2004 verður fjöldi viðburða í boði hjá samkomuhúsum og veitingastöðum vítt og breitt um fjórðunginn og því margt við að vera utan opnunartíma sýningarinnar. Sérstök aðstaða er fyrir börn og skemmtileg leiktæki verða sett upp á sýningarsvæðinu og því er þetta stórviðburður fyrir alla fjölskylduna.

Í dag er sólskin og blíða á Egilsstöðum og hlýtt í veðri og það spáir suðlægum áttum, björtu og hlýju veðri, þá daga sem Austurland 2004 stendur yfir. Sýningunni lýkur á sunnudagskvöld.

Opnunartími Austurland 2004 er sem hér segir:
Fimmtudagur 10/6, kl. 17-20
Föstudagur 11/6, kl. 13-20
Laugardagur 12/6, kl. 11-19
Sunnudagur, 13/6 kl. 11-19

Verð aðgöngumiða er kr. 500 fyrir 12 ára og eldri, en ókeypis er fyrir börn yngri en 12 ára.