Í viðtali við Viðskiptablaðið í október sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að útsvarstekjur borgarinnar væru af einhverjum ástæðum ekki að hækka í takt við laun í kjarasamningum, og hefur þessu verið haldið fram víðar. Til að kanna málið aflaði Viðskiptablaðið upplýsinga um útsvarsprósentur tuttugu stærstu sveitarfélaga landsins síðustu sjö árin. Þá voru staðgreiddar útsvarstekjur sveitarfélaganna bornar saman við reiknaðan skattstofn.

Skattstofninn er reiknaður þannig að atvinnutekjur eru áætlaðar út frá upplýsingum frá Hagstofu Íslands um fjölda starfandi í hverjum mánuði og meðallaun hvers árs. Ólíkt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, sem tekur aðeins til þeirra tekna sem gefnar eru upp í skattskýrslum, ætti þessi reikniaðferð að taka tillit til þeirrar starfsemi sem ekki er gefin upp til skatts enda byggjast upplýsingar um fjölda starfandi á spurningakönnun meðal úrtaks úr Þjóðskrá. Upplýsingar um bóta- og lífeyrisgreiðslur eru hins vegar fengnar frá ríkisskattstjóra.

Tölunum ber þó að taka með þeim fyrirvara að upplýsingar um meðallaun eru fengnar úr staðgreiðsluskrám og innihalda ekki upplýsingar um laun í ákveðnum greinum, meðal annars í ferðaþjónustu. Ef meðallaun í þeim greinum og meðallaun þeirra sem starfa svart eru ekki þau sömu og meðallaun annarra gæti það haft áhrif á niðurstöðurnar. Þá eru eftirágreiddar útsvarstekjur ekki með í tölunum.

Staðgreiddar útsvarstekjur sveitarfélaga virðast um árabil hafa verið lægri en þær ættu að vera miðað við raunverulegan skattstofn. Þannig voru útsvarstekjur í júní aðeins um 11,7% af skattstofni miðað við útreikninga Viðskiptablaðsins, en á sama tíma var útsvarsprósenta 20 stærstu sveitarfélaga landsins um 14,5%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .