*

föstudagur, 22. janúar 2021
Innlent 1. desember 2020 06:57

„Stórt skref í stærri vegferð“

FME hefur skráð Alfa Framtak ehf. sem rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Gunnar Páll Tryggvason segir þetta vera stórt skref í stærri vegferð.

Ritstjórn
Gunnar Páll Tryggvason stofnandi Alfa Framtaks.
Gígja Einars

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur skráð Alfa Framtak ehf. sem rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, tekur þessum fréttum fagnandi.

„Þetta er stórt skref í stærri vegferð. Frá árinu 2018 höfum við rekið sjö milljarða króna framtakssjóð sem verður full fjárfestur á komandi ári. Okkur hefur gengið vel að koma þeim peningum í vinnu og sjáum mikil tækifæri í því að styðja stjórnendur og athafnafólk í að ná því besta út úr sínum rekstri,“ segir Gunnar Páll í fréttatilkynningu félagsins.

Fyrsti sjóður Alfa Framtaks leggur áherslu á umbreytingaverkefni. Sjóðurinn fjárfestir í hlutafé fyrirtækja, oftast sem meirihlutaeigandi og beitir sér markvisst fyrir virðisaukningu.

Samkvæmt Árna Jóni Pálssyni, fjárfestingastjóra Alfa Framtaks, á fyrsti sjóðurinn aðeins tvö til þrjú fjárfestingaverkefni eftir. „Umbreyting I, hefur fjárfest um 61% af hlutafjárloforðum sjóðsins. Við eigum því eftir að velja tvö til þrjú verkefni á komandi ári. Við erum sífellt að skoða góð fyrirtæki, sem við teljum að hægt sé að gera enn betri.“

Fyrsti framtakssjóður Alfa Framtaks var settur á fót 2018 en saga félagsins nær til ársins 2010. Fyrirtækið var stofnað undir nafninu Icora Partners af Gunnari Páli og Friðriki Jóhannssyni. Samkvæmt Gunnari starfaði félagið þá fyrst og fremst á sviði fyrirtækjaráðgjafar. „Forveri Alfa Framtaks vann að kaupum og sölu á fyrirtækjum, fjármögnun, fjárhagslegri endurskipulagningu og stefnumótun á Norðurlöndunum og Austur-Evrópu.

Alls lukum við 20 verkefnum frá 2010 til 2017, þar sem virði fyrirtækja sem unnið var fyrir nam samtals yfir 200 milljörðum króna. Alþjóðleg reynsla okkar og þekking nýtist vel í þeim verkefnum sem við fjárfestum í.“ Samkvæmt heimasíðu Alfa Framtaks leiddi teymið til að mynda sölu D‘Angleterre hótelsins og endurskipulagningu Hamé í Tékklandi og Laima í Lettlandi.

Á þessu ári hefur Alfa Framtak stækkað teymið sitt, en flest fyrirtæki í eignasafni félagsins hafa einnig bætt við sig mannauði segir Gunnar. „Á þessu ári höfum við stækkað teymið okkar, en við fögnum því sérstaklega að verið sé að ráða hjá þremur af fjórum fyrirtækjum sem Alfa Framtak hefur fjárfest í. Ég tel að þetta sýni að við séum virðisaukandi fjárfestir, sem er ekki að koma inn með hlutlaust fjármagn.“