Rekstrarniðurstaða Latabæjar ehf. var á síðasta ári neikvæð um 2.560 þúsund Bandaríkjadali, um 321,7 milljónir króna á núverandi gengi, samanborið við 767 þúsund dala hagnað árið 2010.

Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði Latabæjar var neikvæð um 1,7 milljónir dala, samanborið við hagnað upp á 1,8 milljónir dala árið áður. Eigið fé samstæðunnar var í árslok síðasta árs um 12 milljónir dala og jókst lítillega milli ára. Þá námu skuldir samstæðunnar í árslok um 1,8 milljónum dala

Að sögn Sigurðar Stefánssonar, fjármálastjóra Latabæjar, lá fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2011 yrði neikvæð þegar ákveðið var að fara í samstarf við bandaríska sjónvarpsrisann Turner Broadcasting (eins og áður hefur komið fram keypti Turner rekstur Latabæjar á síðasta ári) og er niðurstaðan í samræmi við langtímaáætlanir félagsins. Í fyrsta lagi vegna þess að breyta þyrfti reikningsskilaaðferðum í takt við það sem gerist í Bandaríkjunum og í öðru lagi þar sem langtímaáætlanir gerðu ráð fyrir að kaupa þyrfti til baka áður seld réttindi til þess að þau mætti nýta innan Time Warner samstæðunnar.

Að sögn Sigurðar mun félagið skila hagnaði árið 2012 samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Sigurður vill af samkeppnisástæðum ekki gefa upp andvirði kaupanna á fyrrnefndum réttindum.