*

laugardagur, 20. júlí 2019
Erlent 22. mars 2018 19:15

Stórþingið samþykkir ACER

Meirihluti norska þingsins hefur samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka ESB.

Snorri Páll Gunnarsson
Norska Stórþingið í Osló.
Haraldur Guðjónsson

Meirihluti norska þingsins hefur samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins (ESB). Ríkisstjórnarflokkarnir þrír – Hægriflokkurinn, Framfaraflokkurinn og Vinstriflokkurinn, sem saman mynda minnihlutastjórn – ásamt Verkamannaflokknum og Græningjum kusu með pakkanum. Aftenposten greinir frá.

Þriðja orkupakka ESB er ætlað að opna orkumarkaði í Evrópu og tengja saman orkukerfi einstakra aðildarríkja ESB. Pakkinn felur í sér að teknar verði upp alls sex ESB-gerðir í EES-samninginn. Þrjár þeirra varða raforkumarkaðinn og tvær eru á sviði jarðgass. Sjötta gerðin mælir fyrir um að komið verði á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem nefnist ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). ACER er meðal annars falið, við sérstakar aðstæður, að skera úr um deilumál milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda er varða grunnvirki sem ná yfir landamæri.

Mikið hefur verið rætt um þriðja orkupakkann í Noregi síðustu misseri, en lítið hefur farið fyrir umræðu um pakkann hér á landi. Málið þykir umdeilt í Noregi, sem er hluti af innri orkumarkaði ESB ólíkt Íslandi, en meirihluti Norðmanna var andvígur pakkanum og ACER, samkvæmt skoðanakönnunum.

Andstæðingar pakkans færðu rök fyrir því að hann fæli í sér framsal á yfirráðum yfir orkuauðlindum til stofnana ESB, hækkun raforkuverðs og skerta samkeppnishæfni norskrar stóriðju. Stuðningsmenn pakkans færðu hins vegar rök fyrir því að hann hefði ekkert með eignarhald yfir orkuauðlindum eða auðlindastjórnun að gera – það væri einfaldlega hræðsluáróður.

Lagt var til að atkvæðagreiðslunni um orkupakkann í Stórþinginu yrði frestað, sérstaklega í ljósi óskýrrar afstöðu íslenskra stjórnvalda til orkupakkans. Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ályktun á landsþingi síðustu helgi um að flokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Flokksþing Framsóknarflokksins tók í svipaðan streng. Frestunartillagan var þó felld í norska Stórþinginu.

Afstaða Íslands skiptir máli fyrir Norðmenn þar sem ákvörðun um að hafna orkupakkanum myndi þýða að hann myndi ekki taka gildi gagnvart neinu EFTA-ríkjanna. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir EES-samstarfið, þar sem slíku neitunarvaldi hefur aldrei verið beitt áður.

Stikkorð: ESB orkumál ACER Stórþingið