Fjármálastöðugleikaráð telur að stóru viðskiptabankarnir þrír og Íbúðalánasjóður þurfi að sæta auknu eftirliti, enda hafi starfsemi þeirra mikla þýðingu fyrir raunhagkerfið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

„Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar eru þeir sem vegna stærðar og eðlis starfsemi sinnar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og á raunhagkerfið ef þeir lenda í erfiðleikum. Af þessum ástæðum og sakir þess að kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðila eru oft á tíðum mikilvæg varðandi starfsemi fjármálainnviða og aðgang almennings að greiðsluþjónustu og eigin sparifé er opinbert öryggisnet um þær þéttara en ella og beinar og óbeinar ábyrgðir á skuldbindingum þeirra víðtækari," segir í tilkynningu um ákvörðunina.

Aukinn freistnivandi til staðar

Í ljósi þess að þessir aðilar starfi í skjóli beinnar og óbeinnar ríkisábyrgðar telur fjármálastöðugleikaráð að stjórnerndur þeirra hafi óæskilega hvata til að taka meiri áhættu en heppilegt sé. „Það magnar freistnivanda sem birtist í því að þessir aðilar taka meiri áhættu en hagkvæmt er fyrir fjármálakerfið í heild. Því er þörf á regluverki sem vinnur á móti þessari tilhneigingu, sérstaklega í formi aukinna eiginfjárkvaða, og virkara eftirlits en ella," segir jafnframt.

Fjármálastöðugleikaráð telur þýðingarmikið að hægt verði að hækka eiginfjárkröfu um 2% af áhættugrunni, umfram það sem almennt gerist, en fyrir þinginu liggur nú frumvarp sem felur þessa heimild í sér.