Nokkrir af stærstu bönkum Bandaríkjanna, þar á meðal JPMorgan Chase, eiga í viðræðum um að bjarga First Republic Bank, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal. Samkomulagið gæti falið í sér umtalsverða innspýtingu til að bæta lausafjárstöðu First Republic.

Hlutabréfaverð First Republic lækkaði um tæplega 35% við opnun markaða í dag en hefur aðeins rétt úr kútnum eftir því sem leið á daginn. Gengi bankans hefur fallið um nærri 80% frá áramótum, m.a. vegna ótta um að hann verði fyrir sömu örlögum og Silicon Valley Bank (SVB) og Signature Bank.

JPMorgan vinnur nú með Citigroup, Bank of America og Wells Fargo til að veita First Republic líflínu. Morgan Stanley, Goldaman Sachs auk U.S. Bancorp og PNC Financial Services Group eru einnig sagðir eiga þátt í viðræðunum.

Heimildarmenn WSJ segja að mögulega verði tilkynnt um samkomulagið síðar í dag. Enn sé þó óljóst hvernig endanleg útfærsla líti út auk þess sem eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum eiga eftir að gefa grænt ljós.

Fjárfestar og viðskiptavinir byrjuðu að fylgjast grannt með stöðu First Republic í kjölfar falls SVB og Signature í síðustu viku. Viðskiptavinir tóku út milljarða dala af reikningum sínum hjá First Republic um helgina.

Bankinn tilkynnti á sunnudaginn um nýja 70 milljarða dala fjármögnun frá Seðlabanka Bandaríkjanna og JPMorgan Chase. First Republic hefur lýst því yfir undanfarna daga að fjárhagsstaða sín sé traust og að lausafjármissir vegna úttekta sé ekki of íþyngjandi fyrir bankann.

Í gær tilkynntu lánshæfisfyrirtækin S&P Global og Fitch að þau hefðu ákveðið að færa skuldabréf First Republic niður í ruslflokk (e. junk bond).