*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 18. október 2017 15:29

Stóru flokkarnir komnir undir 20%

Sjálfstæðisflokkurinn mælist á ný með meira fylgi en Vinstri græn. Björt framtíð mælist með 1,6% mánuði eftir að slitu stjórninni.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Stuðningur við Samfylkinguna hefur aukist um næstum helming á einum mánuði eða um 5,4 prósentustig og mælist fylgi flokksins nú 15,8%. Undir lok september mældist flokkurinn með 10,4%, en 13,0% í síðustu mælingu. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur á ný og Vinstri græn næst stærstur samkvæmt nýrri könnun MMR, sem stóð yfir dagana 17. til 18. október.

Mælist þó hvorugur flokkanna með yfir fimmtungsfylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,9% en Vinstri græn með 19,1%. Í síðustu mælingu MMR 11. október síðastliðinn mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 21,1% en Vinstri græn mældust þá stærri eða með 21,8%.

Bæði Viðreisn og Flokkur fólksins ná inn manni samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, en Björt framtíð heldur áfram að þurrkast út og er fylgi flokksins sem sleit stjórnarsamstarfinu komið niður í 1,6%. Fylgi annarra flokka mældist samanlagt 0,8%. Píratar mælast nú aðeins stærri en Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en Framsókn sækir eilítið aftur í sig veðrið og er flokkurinn kominn með 8,0% fylgi.

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 19,9% og mældist með 21,1% í síðustu könnun.
  • Fylgi Vinstrigrænna mælist nú 19,1% og mældist með 21,8% í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 15,8% og mældist með 13,0% í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 11,9% og mældist 10,5% í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 11,0% og mældist 10,7% í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknar mældist nú 8,0% og mældist 5,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 6,7% og mældist 3,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokk fólksins mældist nú 5,3% og mældist 7,4% í síðustu könnun.
  • Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 1,6% og mældist 4,2% í síðustu könnun.