Pieter Elbers forstjóri elsta flugfélags heims KLM, hollenska ríkisflugfélagsins sem starfað hefur frá árinu 1919, en er nú rekið sem hluti af samsteypunni Air France - KLM, segir komu lággjaldaflugfélaganna hafa valdið mestu umróti í flugiðnaðinum á síðustu tveimur áratugum.

Segir Elbers að gömlu flugfélögin hafi vanmetið áhrif þeirra þangað til það var of seint í viðtali við Business Insider . Í greininni eru AirAsia og íslenska flugfélagið Wow Air nefnd í því samhengi. „Mín persónulega skoðun er að sérstaklega á fyrstu áratug tilveru þeirra, hafi stór flugfélög eins og okkar að einhverju leiti vanmetið,nánast á hrokafullan hátt virt af vettugi, mikinn vöxt lággjaldaflugfélaga,“ segir Elbers.

„Við getum séð að hlutur þeirra í flugmarkaðnum í Evrópu hefur aukist jafnt og þétt og er núna á milli 42% og 45% af öllum ferðum innan Evrópu á vegum lággjaldaflugfélaga, sem er töluvert hærra hlutfall en í Bandaríkjunum, þar sem það er um þriðjungur.“

Til að bregðast við hefur félagið lækkað kostnað og bætt nýtingu flugflota félagsins og breytt verðum á um 60% allra flugleiða félagsins sem eru í heildina um 80 talsins. Elbers segir félagið vera leiðandi í samþjöppun og samþættingu verkefna þó ekki séu allir hlutar starfseminnar sameinaðir, heldur geti hvor hluti félagsins fyrir sig lært af því að deila upplýsingum en einnig keppa sín á milli.