Ég hefði aldrei getað gert innan Opinna kerfa það sem ég er að gera með Endor. Stóru fyrirtækin eru olíuskip sem þurfa að fylla kvótann á hverjum mánuði og hafa lítinn tíma og rými til að breyta sér hratt,“ segir Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins Endor.

Hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri Opinna kerfa í júní árið 2015 eftir fimmtán ára starf og var búinn að ráða sig hjá öðru fyrirtæki þegar honum snerist hugur og ákvað að stofna ásamt fleirum fyrirtækið Endor, sem hannar og rekur skýjalausnir fyrir fyrirtæki. Áherslur Endor eru að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga við­ skiptavina með því að taka lausnir frá viðurkenndum samstarfsaðilum, staðfæra, aðlaga og samþætta í innpakkaðar þjónustur sem afhentar eru í áskriftarfyrirkomulagi úr skýjalausnamengi.

„Ég hitti ríflega hundrað aðila á markaði, gamla samkeppnisaðila, kúnna, samstarfsaðila, sprota og fleiri í leit að pælingum. Ég fór inn í spjall án þess að vera með skorkort. Ég var bara að spyrja, ekki að reyna að selja neitt.“ Eftir fundina sáu Gunnar og stofnendur Endor rauðan þráð. „Gögnin eru rauði þráðurinn og grunnurinn að þessu öllu saman. Við vildum skarpari fókus en áður. Ef þú ætlar að koma með breytingu fyrir starfsfólkið og færa það út fyrir þægindarammann, mætir það miklu viðnámi. Þegar þú ert með stórt fyrirtæki þá tekur allt svona svakalega langan tíma.“ Sveigjanleiki varð því eitt af aðalsmerkjum Endor.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .