Stærstu málin sem Icelandair hyggst ljúka fyrir tæplega 30 milljarða króna hlutafjárútboðið eru enn óleyst. Viðræður við flugfreyjur eru í hnút. Þá eru viðræður við leigusala, lánardrottna, birgja og aðra viðskiptavini um greiðslufresti, skilmálabreytingar og breytingu skulda í hlutafé flóknar enda þarf að draga marga að borðinu.

Ekki hefur náðst niðurstaða í viðræður við Boeing um bætur og afhendingu 737 MAX flugvélaflotans. Samningar við ríkið um lánalínur og ríkisábyrgð hanga á að fjárhagsleg endurskipulagning og hlutafjárútboð takist.

Á hluthafafundi félagsins þann 22. maí var gefið út að stefnt væri á að samningar næðust við kröfuhafa og ríkið mánudaginn næstkomandi, 15. júní. Helst hefur verið horft til lífeyrissjóða í hluthafahópnum um að leggja Icelandair til fé þótt fyrirhugað hlutafjárútboð verði öllum opið.

Í samtölum við Viðskiptablaðið segja forsvarsmenn lífeyrissjóðanna að fyllri upplýsingar þurfi um félagið og óvissuþætti í rekstrinum áður en hægt verði að taka ákvörðun um fjárfestingu í félaginu. Vonast er til að það skýrist með birtingu skráningarlýsingar og fjárfestakynningar í aðdraganda hlutafjárútboðs.

Stefnt var á að skráningarlýsing yrði gefin út á tímabilinu 16.-22. júní þar sem allar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins og framtíðaráætlanir verða birtar. Eftir birtingu skráningarlýsingar hyggst félagið halda opinn fund með fjárfestum og fara í svokallað „roadshow“ þar sem staða félagsins er kynnt fjárfestum. Stefnt var að því að hlutafjárútboð færi fram um mánaðamótin júní/júlí. Tímalínan sem var kynnt á fundinum var þó með þeim fyrirvara að óvissan væri mikil.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .