Aðilar vinnumarkaðarins náðu um síðustu helgi óformlegu samkomulagi um aukna samvinnu við framkvæmd núgildandi kjarasamninga auk ýmissa nýrra þátta sem viðkoma samningunum. Fyrir utan það að hækka greiðslur til starfsendurmenntunar felur samkomulagið í sér drög að styttingu núgildandi kjarasamninga um tvo mánuði, þannig að þeir renni út 30. nóvember nk. Þá mun á næstu vikum hefjast sameiginleg stefnumótunarvinna í atvinnu- og gengismálum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má telja nær útilokað að núverandi samningum verði sagt upp en frestur til þess að segja upp samningum rennur út kl. 16 næstkomandi mánudag.

Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í síðustu viku um stöðuna á vinnumarkaði kom fram að bæði Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) teldu forsendur kjarasamninganna brostnar að mörgu leyti þó ekki væri endilega ástæða til að segja samningunum upp. Þá var hart tekist á um mögulegar aðgerðir gegn verðbólgu og kaupmáttarrýrnun. Í raun er sú deila ekki leyst en með fyrrnefndu samkomulagi um sameiginlega stefnumótunarvinnu í atvinnu- og gengismálum verður áfram unnið að lausn málsins.

Nánar er fjallað um málið og stöðuna á vinnumarkaði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.