Ítrekað hefur verið greint frá því að ríkisstjórn Alexis Tsipras í Grikklandi vilji nýta það lýðræðislega umboð sem hún fékk í síðustu þingkosningum í Grikklandi til að komast undan hörðum skilyrðum björgunarlána sem síðasta ríkisstjórn samþykkti.

Á hinn bóginn hefur þýska ríkið, sem og önnur evruríki, áhyggjur af því fordæmi sem myndi skapast ef látið yrði undan kröfum Grikkja. Slíkt myndi grafa undan trúverðugleika evrópska seðlabankans þegar kæmi að því að semja við næsta land um skilyrði neyðarláns og einnig grafa undan stuðningi við þær ríkisstjórnir sem þó hafa reynt að uppfylla slík skilyrði. Aðhaldsaðgerðir þessara ríkisstjórna eru nú fyrst að sýna einhver merki árangurs, en sérmeðferð fyrir Grikki gæti grafið undan honum.

DeAnne Julius, fyrrverandi meðlimur peningastefnunefndar Englandsbanka, segir í grein sem hún skrifaði í Financial Times að við fyrstu sýn mætti rugla viðræðunum saman við eins konar störukeppni, þar sem hvor aðilinn býst við því að hinn gefist fyrst upp. Það gæti hins vegar reynst Grikkjum dýrkeypt veðmál. Evrópusambandið og evrusvæðið séu mun betur til þess fallin að takast á við brottför Grikklands úr evrusvæðinu en árið 2012. Hagkerfi evrusvæðisins sé farið að sýna einhver merki bata, hvort sem það er vegna inngripsaðgerða seðlabankans eða af öðrum ástæðum. Þá sé eiginfjárstaða evrópskra banka mun sterkari en áður og hlutfall grískra skuldabréfa í eignasöfnum þeirra minna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .