Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, hefur keypt rekstur Ísland Express, rekstrarfélags Iceland Express sem hingað til hefur verið í eigu Pálma Haraldssonar. Wow air mun frá deginum í dag taka yfir allan flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express.

Ekki er um sameiningu að ræða heldur tekur Wow air aðeins yfir flugáætlun Iceland Expres. Flogið verður framvegis undir merkjum Wow air. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda.

„Við erum virkilega ánægð með kaupin og bjóðum farþega Iceland Express hjartanlega velkomna um borð,“ segir Skúli Mogensen í tilkynningu frá félaginu.

„ Iceland Express hefur verið brautryðjandi lággjaldaflugfélag á Íslandi og var stundvísasta flugfélagið á Íslandi síðastliðið sumar. Þessi kaup munu stórefla starfsemi WOW air og tryggja að við getum áfram boðið lægsta verðið og frábæra þjónustu. Við munum samstundis geta stóraukið tíðni okkar á flugum til London og Kaupmannahafnar og jafnframt tryggt aukið framboð og nýja áfangastaði næsta sumar.“

Í kjölfarið mun WOW air bjóða strax upp á aukna tíðni til London og Kaupmannahafnar ásamt flugum í vetur til Berlínar, Salzburgar yfir skíðatímabilið og Varsjár og Kaunas yfir jólin. Frá með næsta vori verður Wow air með fjórar A320 Airbus vélar.

Settu meiri pening í reksturinn

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 4. október sl. að hlutafé Ísland Express, rekstrarfélags Iceland Express, hefði verið aukið um rúman milljarð króna nokkrum dögum áður. Hlutafjár aukningin fór fram með skuldajöfnun, sem fól í sér að kröfum Eignarhaldsfélagsins Fengs ehf. og Sólvalla ehf. upp á 398 milljónir annars vegar og 621,3 milljónir hins vegar var breytt í hlutafé. Öll félögin voru þá í eigu Pálma Haraldssonar.

Þetta var í annað sinn á innan við ári sem hlutafé í Ísland Express var aukið með skuldajöfnun við tengd félög. Síðast í janúar á þessu ári var hlutafé félagsins hækkað um 1.745 milljónir með skuldajöfnun við Feng. Á sama tíma var svo hlutafé félagsins lækkað um rúma tvo milljarða til jöfnunar taps vegna reksturs Express. Á innan við ári hafa því félög Pálma skuldajafnað rúmlega 2,7 milljarða við Ísland Express.

Eins og áður hefur komið fram jók Skúli Mogensen hlutafé Wow air um 500 milljónir króna í lok ágúst sl. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Skúli nú varið um 800 milljónum króna í félagið frá upphafi en félagið var stofnað í lok síðasta árs. Samfara því settist Skúli sjálfur í stól forstjóra félagsins en Baldur Oddur Baldursson, sem stýrt hafði félaginu frá upphafi og verið náinn samstarfsmaður Skúla, lét af störfum.

Pókerinn

Viðskiptablaðið lýsti stöðunni þá þannig að í raun væru þeir Pálmi og Skúli í hálfgerðum póker og að það væri engin leið að segja til um næsta leik, þó gefið væri í skyn að annað hvort myndi félögin sameinast (sem mátti teljast ólíklegt þar sem ólíklegt væri að þeir vildu vinna saman) eða þá að Skúli myndi kaupa rekstur Iceland Express en honum hafði áður verið boðið félagið til sölu.

Hér má sjá viðtal við Skúla Mogensen .