Einstaklingar sem lifa og hrærast í nýsköpunar- og sprotaumhverfinu á Íslandi gagnrýna skýrslu starfshóps, sem ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar skipaði í haust. Starfshópurinn átti að fara yfir starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) og móta tillögur um framtíð hans. Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi sprotavefritsins Northstack, bendir í grein á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara við skrif skýrslunnar.

Í umfjöllun hans um skýrsluna segir að hún valdi vonbrigðum, bæði hvað varðar gæði og vegna þess að lykilspurningar voru hvorki settar fram né þeim svarað í skýrslunni. Þá bendi lestur skýrslunnar til að starfshópinn skorti reynslu af fjármögnun einkaaðila í sprotaumhverfinu og af umhverfinu sjálfu. Kristinn Árni tekur þó fram að skýrsluhöfundar benda sjálfir á að ekki sé rétt að skoða NSA í tómarúmi og kalla eftir umfangsmeiri úttekt á starfs- og fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja. Þá vekja þeir máls á þörfinni á að laða erlend tæknifyrirtæki til landsins til að auðga sprotaumhverfið sem og að auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga.

Umfjöllunina má lesa í heild á vefnum northstack.is.

Hvorki spurt né svarað

Í umfjölluninni segir að í skýrslunni sé gert ráð fyrir mikilvægu hlutverki NSA í fjármögnun sprotafyrirtækja á fyrstu stigum. Kristinn bendir hins vegar á að á undanförnum árum hafi bæst við sjóðir sem fjárfesta á fyrstu stigunum á sama tíma og NSA hefur ekki getað fjárfest. Þannig hafi aldrei verið jafn margar fjárfestingar og árið 2017, þrátt fyrir að NSA hafi ekki fjárfest í neinu nýju fyrirtæki. Spurningunni um hvort þessi markaðsbrestur sé því enn til staðar er því hvorki spurt né svarað.

Helga Valfells, einn eigenda sprotasjóðsins Crowberry Capital, formaður nýstofnaðra samtaka framtaksfjárfesta og fyrrverandi framkvæmdastjóri NSA, segir að þessu til viðbótar hafi ekki verið kannað hvort annars konar markaðsbrestur sé til staðar sem NSA gæti mætt. „Það gæti samt vel verið að það séu núna aðrir markaðsbrestir. Ég sakna þess í skýrslunni að það sé ekki greint hvort það sé þörf á svona sjóði og þá hvar þörfin er,“ segir Helga. „Frá því að netbólan sprakk til ársins 2015 var Ný- sköpunarsjóður eini sjóðurinn sem fjárfesti mjög snemma í fyrirtækjum. Árið 2015 komu aðrir sjóðir sem fara mjög snemma inn í fyrirtæki – sérstaklega upplýsingatæknifyrirtæki. Það er örugglega markaðsbrestur víða en ég held að það hefði átt að byrja á að greina hann.“ Þá er að mati Helgu ekki nógu mikið gert til að móta stefnu sjóðsins til framtíðar.

Ekki fjallað um annað mikilvægt hlutverk NSA

Helga tekur undir að það gæti verið hagfellt fyrir hið opinbera að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum í samstarfi við einkaaðila. Hún bendir auk þess á að í skýrslunni er ekki mikið fjallað um það mikilvæga hlutverk fjárfesta að styðja við bakið á frumkvöðlum í gegnum stjórnarsetu. „NSA er hluthafi í mörgum mjög góðum félögum. Það mikilvægasta fyrir hann er kannski að vinna með þeim félögum sem hann á hlut í,“ segir Helga, en NSA á stjórnarmenn í um tuttugu félögum. „Ég saknaði þess í skýrslunni að það er ekki fjallað um það hlutverk sjóðsins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .