„Þessi heimur er að breytast mikið. Notendur eru þegar farnir að velja meira sjálfir hvað og hvenær þeir vilja horfa á sjónvarpsefni,“ segir Hugi Halldórsson, stofnandi framleiðslufyrirtækisins Stórveldisins, í skugga þess að framtíð sjónvarps er að mörgu leyti nokkuð óljós um þessar myndir. Mikil gerjun er á markaðnum og þróunin ör. Stór hluti íslensku þjóðarinnar nú kominn með aðgang að Netflix, sem er eins konar myndbandaleiga á netinu (VOD - video on demand). VOD getur líka átt við myndefni í gegnum myndlykla eins og til dæmis hjá Vodafone og Símanum.

Hugi segir sjónvarpið samt aldrei hverfa. Alltaf verði til sjónvarpsstöðvar. En milliliðirnir séu að detta út enda hafi áhorfendur fleiri leiðir en áður til að nálgast efnið og er Netflix gott dæmi um það.

„Tæknin er hins vegar að breyta þessu því nú getum við auðveldlega búið til efni úr einhverri hugmynd jafnvel þó að henni hafi verið hafnað af dagskrárstjórum. Við getum þá bara sett hana á netið og fólk getur nálgast efnið þar. Vald dagskrárstjóranna, sem einhver endanleg sía á það hvað er gott eða slæmt, er að minnka að þessu leyti,“ segir Hugi og segir kominn vísi að íslensku Netflix-i með VOD-þjónustu símafyrirtækjanna.

„Sjónvarpsstöðvarnar eru nú þegar farnar að setja heilar sjónvarpsseríur inn í VOD-þjónustuna og þar með getur áhorfandinn valið hvenær hann vill horfa á efnið og hvort hann vill horfa á einn, tvo eða þrjá þætti í einu. Þó að línuleg dagskrá muni ekki hverfa þá mun munstrið breytast en hvernig þetta endar veit enginn í dag.“

Ítarlega er rætt við Huga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .