Hugi Halldórsson hjá framleiðslufyrirtækinu Stórveldinu sér fyrir sér talsverða breytingu í framleiðslu á sjónvarpsefni á næstu misserum. Íslensk framleiðslufyrirtæki muni í auknum mæli stjórna því hvað sé í boði í sjónvarpi fyrir fólk með því að framleiða beint inn á VOD-þjónustur símafyrirtækjanna eða á netið.

„Við þurfum klárlega að halda öllum möguleikum opnum. Svo ég tali fyrir sjálfan mig og okkur hér hjá Stórveldinu þá erum við alveg tilbúnir til þess að framleiða beint inn á VOD eða netið. Hvað VOD-þjónustuna snertir þá gæti þetta virkað þannig að notandinn keypti bara stakan sjónvarpsþátt eða seríu af okkur. Önnur lausn væri að það væru ákveðin svæði inni á VOD-inu sem fólk gæti keypt sér aðgang. Þannig myndi fólk til dæmis geta keypt sér aðgang að svæði Stórveldisins þar sem allt okkar efni yrði. Ég er mjög bjartsýnn á að þetta verði að veruleika í mjög náinni framtíð. Það kæmi mér reyndar alls ekki á óvart ef við sæjum eitthvað gerast í þessu á næstu 12 eða 18 mánuðum,“ segir hann.

Hugi segir að framleiðslu sjónvarpsefnis engu að síður kostnaðarsama. „Þetta er alveg örugglega dýrara en fólk almennt heldur. Það eru ekki margir sjónvarpsþættir sem kosta undir milljón, þá meina ég einn þáttur. Yfirleitt er þetta töluvert dýrara en það í framleiðslu. Til þess að átta sig á kostnaðinum þarf fólk nú ekki að gera annað en að lesa kredit-listana sem rúlla í gegnum sjónvarpsskjáinn þegar þætti er lokið. Það eru ótrúlega margar hendur sem koma að gerð sjónvarpsþáttar.“

Ítarlega er rætt við Huga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .