Framleiðslufyrirtækið Stórveldið mun flytja með starfsemi sína að Krókhálsi 6. Um árabil var 365 með starfsemi í þessu sama húsnæði. Áætlað er að flytja í nóvember en húsnæðið er í eigu Reita. Stórveldið mun leigja um 1000 fermetra, eða þriðju hæðina, fyrir stúdíó og skrifstofur.

Hugi Halldórsson, framkvæmdastjóri Stórveldisins, segir að plássleysi vera aðalástæðuna fyrir flutningunum. Að undanförnu hefur Stórveldið bætt við sig starfsmönnum og má þá meðal annars nefna Hlyn Sigurðsson, fyrrum upplýsingafulltrúa LÍÚ, og Pétur Jóhann Sigfússon, fjölmiðlamann.

“Við erum orðin það mörg núna að þessir fáu fermetrar í turninum í Borgartúni eru einfaldlega of fáir auk þess bjóði nýja húsnæðið uppá marga möguleika”, segir Hugi. Hann segir margt vera á döfinni hjá fyrirtækinu. Stórveldið er meðal annars að framleiða Popp og kók fyrir Stöð 2 með Unni Eggertsdóttur og Borð fyrir fimm sem hefur göngu sína á nk. miðvikudag á Skjá Einum auk þess er Áramótaskaup Sjónvarpsins í fullum undirbúningi.