Framleiðslufyrirtækið Stórveldið hefur hætt rekstri. Í samtali við RÚV segir Hugi Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Stórveldisins, að ákvörðunin hafi verið erfið. Fyrirtækið muni þó klára þau verkefni sem þegar séu í gangi.

Hugi segir að rekstrarumhverfið hafi breyst mikið undanfarin ár. Bæði hafi verið lækkað en einnig séu sjónvarpsstöðvar farnar að framleiða mikið af sínu efni sjálfar. Þetta hafi áhrif á rekstur framleiðslufyrirtækja eins og Stórveldisins.

Stórveldið var stofnað árið 2011 og hefur framleitt fjöldann allan af þáttum á þeim tíma. Meðal annars Áramótaskaupið, Andra á Flandri og Atvinnumennina okkar.

Hugi fetaði sín fyrstu skref í sjónvarpi í  70  mínútum á sjónvarpsstöðinni Popp Tíví árið 2003. Árið 2006 var hann ráðinn til Saga film sem framleiðandi á auglýsingadeild fyrirtækisins. Hann byrjaði sem verktaki í nokkra mánuði en var síðan fastráðinn og starfaði hjá fyrirtækinu allt til  ársins 2011 þegar Stórveldið var stofnað.