*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 4. september 2019 18:09

Stóryrtar umræður á breska þinginu

Boris kallar Corbyn bleyðu sem þori ekki í kosningar. Notaði orðalagið stór stelpupeysa um leiðtoga verkamannaflokksins.

Ritstjórn
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í heitum umræðum á breska þinginu.
epa

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í Bretlandi, auk uppreisnarmanna úr röðum Íhaldsflokksins, tryggðu með 329 atkvæðum gegn 300 að nýtt frumvarp sem mun neyða Boris Johnson forsætisráðherra landsins til að biðja um framlengda veru landsins í Evrópusambandinu.

Gagnrýndi Boris Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins fyrir tafir og stefnuleysi í útgöngunni úr ESB, og kallaði hann meðal annars „stórrar stelpu peysu,“ sem líta má á sem einhvers konar orðalag yfir að vera bleyða og ekki þora í kosningar. Jafnframt sagði Boris efnahagsstefnu Corbyn vera skít að því er The Daily Beast greinir frá.

Boris hefur þó eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær, heitið því að ef frumvarpið verði að lögum að hann muni ýta á að blásið verði til þingkosninga, og það áður en boðaður fundur hans með leiðtogum ESB í aðdraganda þess að núverandi framlenging aðildar rennur út 31. október næstkomandi.

Kosið verður um fjölda breytingartillagna við frumvarpið sem stuðningsmenn útgöngu hafa lagt til í kvöld að því er BBC segir frá, en í framhaldinu mun forsætisráðherrann geta lagt fram tillögu sína um nýjar kosningar. Samkvæmt breyttum þingskapalögum þarf hann þó stuðning aukins meirihluta, eða tvo þriðju hluta þingmanna til að blása til kosninga.

Vildu áður kosningar sem fljótt og auðið yrði

Þó leiðtogi og þingmenn Verkamannaflokksins hafi löngum kallað eftir nýjum kosningum segja þeir núna að þeir muni ekki kjósa með því að kosið verði til nýs þings, nema að búið sé að samþykkja að biðja um framlengda veru í Evrópusambandinu.

Jafnframt hafa Frjálslyndir demókratar sagt að þeir muni kjósa sem stendur gegn nýjum kosningum. Ef neðri deild þingsins samþykkir frumvarpið fer það til umræðu í Lávarðadeildinni á morgun, en ef flýtimeðferð er beitt gæti umræðum þar verið lokið á föstudagskvöldið.

Stikkorð: ESB Bretland Boris Johnson Jeremy Corbyn Brexit