Storytel á Íslandi hagnaðist um ríflega 34 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, sem er aukning um 82% frá árinu 2019 þegar hagnaður félagsins nam tæpum 19 milljónum. Velta félagsins nam tæplega 984 milljónum króna á árinu og jókst um 78% milli ára. Eignir félagsins námu 286 milljónum í árslok, samanborið við 148 milljónir ári fyrr. Eigið fé nærri þrefaldaðist milli ára og nam 51 milljón í lok árs 2020. Rekstur Storytel hér á landi gekk ekki síður vel árið 2019 en velta félagsins nær þrefaldaðist þá frá fyrra ári og hagnaður hátt í fjórfaldaðist.

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, segir góða rekstrarniðurstöðu fyrst og fremst stafa af sístækkandi áskrifendahóp en meginþorri tekna félagsins er af áskriftum.

„Viðskiptalíkanið okkar er mjög einfalt í sjálfu sér, við erum í grunninn bara með eina vöru," segir hann og bætir við að vöxturinn sé enn gríðarlegur, 37% það sem af er ári frá því í fyrra.

Munar mikið um rafbækurnar

Storytel hóf að selja sérstakt lesbretti undir rafbækur fyrir réttu ári og segir Stefán brettið hafa slegið í gegn og stóraukið lestur rafbóka.

„Margir áskrifendur okkar eru komnir með lesbrettið og það hefur breytt rafbókamarkaðinum hérlendis. Á sama tíma og við hófum að selja lesbrettið gerðum við mikla gangskör í rafbókum og notkun þeirra hefur aukist verulega. Við sáum um 400% aukningu í rafbókum á milli ára með tilkomu brettisins á meðan notkunin á hljóðbókum jókst um 50% milli ára. Það er því ekki eingöngu þessi mikli fjöldi áskrifenda sem bætist við heldur hefur notkunin aukist hressilega og þar munar mjög mikið um rafbækurnar."

Innreið á enskumælandi markaði

Storytel er á lokametrunum með að koma samstarfi við streymisveituna Spotify á koppinn.

„Það verður vonandi á fyrri hluta næsta árs sem notendur okkar geta hlustað á efni frá okkur í gegnum Spotify-spilarann, sem er mikið framfaraskref hjá okkur," segir Stefán og bætir við að Storytel sé jafnframt að útvíkka starfsemi sína á fleiri markaði.

„Við vorum að kaupa næst stærsta hljóðbókafyrirtæki Bandaríkjanna núna í síðustu viku og erum með því að fara í fyrsta skipti á enskumælandi markaði, sem opnar dyrnar að Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu."

Nánar er rætt við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .