*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 15. ágúst 2019 12:09

Storytel komin með fimmtung bókaútgáfu

Vöxtur í rafrænum hljóðbókum ná langt með að vega upp samdrátt í bókaútgáfu síðasta áratuginn.

Ritstjórn
Stefán Hjörleifsson er framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, en fyrirtækið er með um 1 milljón áskrifenda í 17 löndum.
Aðsend mynd

Fyrirtækið Storytel segist knúa tekjuvöxt í bókaútgáfu þar sem rafrænar áskriftartekjur séu að snúa langvarandi samdrætti í sókn Nýjustu veltutölur bókaútgefenda sem Hagstofan hefur birt sýna um 30% vöxt milli ára í mars og apríl en sömu tölur í janúar og febrúar sýndu einnig vöxt í fyrsta sinn í mörg ár, eða um 8%.

Tekjusamdráttur í þessari grein undanfarin 10 ár hefur verið nærri 40% og því er um umtalsverðan viðsnúning að ræða. Ástæðan fyrir þessum mikla vexti eru rafrænar áskriftartekjur sem Hagstofan birtir í fyrsta sinn á þessu ári með tilkomu hljóðbókaþjónustunnar Storytel á íslenskan bókamarkað.

Fyrstu tekjurnar í fyrra

Ef tekjur Storytel væru dregnar frá þá væri um áframhaldandi samdrátt milli ára þessa fjóra mánuði sem Hagstofan hefur birt fyrir 2019 að ræða. Fyrstu tekjur Storytel á Íslandi urðu til í mars 2018 og eru skv. tölum Hagstofunnar um 20% heildartekna á íslenskrar bókaútgáfu í mars og apríl.

Yfir 20% viðskiptavina Storytel eru nýir lesendur, þ.e. þeir sem ekki lásu bækur áður en þeir hófu að greiða fyrir áskrift hjá Storytel. Hér er því um að ræða nýjar tekjur sem skila sér beint í íslenska bókahagkerfið, rétthöfum og öðrum sem starfa í greininni til aukinna hagsbóta.

Það er einnig áhugavert að samkvæmt könnunum sem Storytel lætur gera reglulega meðal viðskiptavina sinna þá lesa um 80% viðskiptavina Storytel einnig hefðbundnar bækur.

Þetta er sama þróun og hefur átt sér stað í Svíþjóð, á stærsta markaði Storytel, en þróunin þar hefur þó tekið lengri tíma. Þrátt fyrir verulegan samdrátt í prentuðum bókum þar í landi óx markaðurinn heilt yfir um 5% 2018.

Minni samkeppni um tíma fólks að hlusta á rafbækur

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi segir hljóðbækur hafa á skömmum tíma orðið hluti af daglegu lífi Íslendinga þegar það stundar líkamsrækt, ferðast, eldar, þrífur eða setur sig í sérstakar stellingar til að hlusta heima fyrir.

Þannig séu hljóðbækur því síður í samkeppni við tíma fólks en hefðbundinn bóklestur og eða annað sem fólk tekur frá frítíma til að gera og má í því sambandi nefna tölvuleiki, hlaðvörp, hefðbundið og óhefðbundið sjónvarp eins og Netflix. „Það sem er einna ánægjulegast við þessa þróun að þarna er stór hópur fólks sem las ekki bækur að byrja að njóta íslenskra bókmennta,“ segir Stefán.

„Það er ekki aðeins jákvætt fyrir þessa atvinnugrein sem slíka heldur mjög mikilvægt fyrir íslenska tungu. Það er ekki svo langt síðan að fréttir birtust af hruni bóklesturs á Íslandi og við hjá Storytel erum sannfærð um að hljóðbókaformið muni eiga þátt í því að snúa þeirri þróun við.”

Storytel er að sögn Stefáns leiðandi streymisveita og útgefandi hljóðbóka í norður Evrópu, en fyrirtækið er með um eina milljón áskrifenda í 17 löndum og sé því best lýst sem Netflix eða Spotify bókanna. Á Íslandi eru í boði á annað hundrað þúsund hljóðbækur auk rafbóka. Áskrifendur greiða 2.790 kr á mánuði fyrir ótakmarkaðan aðgang að hljóð- og rafbókum.