Kostnaður dönsku bankanna vegna launa, bónusgreiðslna og lífeyrisgreiðslna bankastjóra sinna hefur aukist um 58% seinustu fjögur ár, eða úr 162,4 milljónum danskra króna, um 2,3 milljörðum íslenskra króna, í um 257 milljónir danskra króna, eða ríflega 3,6 milljarða króna.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu danska verslunarráðsins sem byggist á ársskýrslum 43 stærstu fjármálastofnana þar í landi, að því er fram kemur á fréttavefnum tv2.dk.

Ef þeirri upphæð deilt jafnt niður á stofnanirnar allar má ætla að meðalárslaun danskra bankastjóra hafi verið tæplega 85 milljónir íslenskra króna árið 2006.

Til samanburðar má nefna að á sama tíma hefur kostnaður dönsku bankanna vegna almennra starfsmenn aukist um 21%. Þess ber þó að geta að á sama tímabili, 2002-2006, um það bil fjórfölduðust tekjur dönsku bankanna.