*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 11. nóvember 2008 22:21

Stöðugt meiri athygli á Drekasvæðið til olíuvinnslu

Ritstjórn

Drekasvæðið fyrir norðaustan landið virðist síst verra til olíuvinnslu heldur en sambærileg svæði við Noreg eða í Barentshafi, sem eru að komast í notkun eða eru nýlega komin í notkun. Þetta kemur fram í skýrslu sem Kristinn Einarsson jarðfræðingur gerði fyrir Orkustofnun árið 2006.

Stöðugt meiri athygli beinist nú að svæðinu en þar má finna næga setþykkt og nægilega stór afmörkuð fyrirbæri í jarðlögum, sem gætu fullnægt skilyrðum fyrir olíu í vinnanlegu magni

Drekasvæðið er að mestu leyti innan svæðis sem samningur Íslands og Noregs (1981) tekur til, bæði í íslenskri og norskri lögsögu, en einnig suður af því í íslensku lögsögunni.

Hafdýpi er yfirleitt á bilinu 1500-2000 metrar en miklu skiptir að hafstraumar eru ekki taldir mjög sterkir og ölduhæð almennt miklu minni en suður af landinu. Suðvestur af Íslandi er raunar sérlega mikil ölduhæð á heimsvísu.

Rétt sunnan syðstu útmarka hafísþekju milli Austur-Grænlands og Jan Mayen, en rekís og borgarís getur átt leið um, þó án vandræða.

Ekki er eins stormasamt við Jan Mayen og við vesturströnd Noregs. Þarna er þó mjög þokugjarnt, sem gæti truflað þyrlusamgöngur. Ísing gæti einnig truflað þyrluflug.