Vladimír Pútín Rússlandsforseti skipaði Sergei Ívanov, varnarmálaráðherra landsins, í embætti fyrsta aðstoðarforsætisráðherra í síðustu viku. Í flestum öðrum ríkjum væri litið á það sem stöðulækkun að fara frá því að vera varnarmálaráðherra yfir í að verða aðstoðarforsætisráðhera. En eins og með margt annað þegar kemur að rússneskum stjórnmálum þá eiga oft ekki sömu lögmál þar við og víða annars staðar - ekki síst þegar aðeins eitt ár er í forsetakosningar þar í landi. Rússneskir stjórnmálaskýrendur eru flestir á einu máli um að þessi ákvörðun Pútíns séu góðar fréttir fyrir Ívanov og möguleika hans á að verða næsti forseti Rússlands.

Til skemmri tíma munu þessar breytingar Pútíns á ríkisstjórn sinni hins vegar hafa lítil áhrif á rússnesk stjórnmál. Ívanov, ásamt Dímítri Medvedev, sem einnig er aðstoðarforsætisráðherra, hefur í langan tíma verið talinn líklegur eftirmaður Pútíns í embætti forseta þegar kosningarnar fara fram í mars árið 2008; núna virðist það einungis vera orðið opinbert.


Medvedev er einn vinsælasti stjórnmálamaður Rússlands - aðeins Pútín forseti nýtur meiri vinsælda á meðal almennings - og hingað til hafa flestir stjórnmálaskýrendur álitið hann vera á undan Ivanov í goggunarröðinni til að verða forseti landsins. Í skoðanakönnun sem gerð var í síðasta mánuði af hinni óháðu Levada stofnun mældist stuðningur við Medvedev sem næsta forseta Rússlands 17%, samanborið við 11% stuðning við Ivanov.

Þá lýðhylli sem Medvedev nýtur á hann einkum að þakka þeirri miklu umfjöllun sem hann fær frá hinum ríkissreknu sjónvarpstöðvum - ekki skemmir það heldur fyrir að hann þykir myndarlegur og er aðeins 41 árs gamall. Ef hann næði kjöri sem forseti yrði hann yngsti leiðtogi landsins frá því að Nikulás II var keisari Rússlands. Í embætti sínu sem aðstoðarforsætisráðherra stýrir hann útgjöldum ríkisins meðal annars til húsnæðisuppbyggingar, heilbrigðis- og menntamála; allt saman málefni sem eru talin góð til að afla sér vinsælda á meðal almennings í Rússlandi. Auk þess er Medvedev forseti hins umdeilda og valdamikla orkufyrirtækis Gazprom, stærsta fyrirtækis Rússlands.

Á Vesturlöndum er almennt horft til Medvedev sem heppilegri valkost heldur en Ívanov, bæði af stjórnmálamönnum og fjárfestum. Medvedev er sagður hafa frjálslyndar skoðanir á stjórn- og efnahagsmálum - að minnsta kosti á rússneskan mælikvarða - og hefur auk þess engin tengsl við KGB, fyrrverandi leyniþjónustu Sovétríkjanna.


Tengsl Ívanov og Pútíns eru aftur á móti mikil og náin. Persónuleg vinátta þeirra nær allt aftur til áttunda áratugarins, auk þess sem þeir koma báðir frá Pétursborg og báðir eiga þeir að baki langan feril í KGB. Pútín lét einnig hafa það eftir sér stuttu eftir að hann varð forseti, að hann treysti engum betur innan ríkisstjórnar sinnar heldur en einmitt Ívanov.

Stjórnmálaskýrendur benda á að með þessari stöðuhækkun sem Pútín veitti Ívanov, sé hann að reyna jafna möguleika hans í komandi kosningabaráttu gagnvart Medvedev. Áframhaldandi vera hans í embætti varnarmálaráðherra landsins var ekki talin líkleg til að hjálpa honum að ná frekari vinsældum almennings. Rússneski herinn hefur í valdatíð Ívanov legið undir mikilli gagnrýni vegna spillingarmála og ofbeldis sem tíðkast gegn ungum hermönnum sem eru stíga sín fyrstu spor innan hans. Enda þótt útgjöld til varnarmála í Rússlandi hafi aukist mikið á undanförnum árum - á þessu ári munu þau hækka um 23% - benda sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum á, að herinn eigi enn langt í land með að ná þeirri fagmennsku í starfsháttum sínum eins og Ívanov hafi stefnt að.

Ívanov nýtur virðingar á meðal sumra vestrænna ríkiserindreka, til dæmis Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem kann að meta hæfileika hans til að hugsa sjálfstætt, ólíkt mörgum öðrum stjórnmálamönnum í Kreml. Hins vegar gæti orðið breyting á þessu þar sem vísbendingar eru um að Ívanov sé farinn að feta í auknum mæli í fótspor Pútíns með herskáum ummælum í garð NATO og utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á hinni árlegu alþjóðlegu efnahagsráðstefnu í Davos í Sviss, sem haldin var í síðasta mánuði, hótaði Ívanov því að Rússar myndu segja upp samningnum við Bandaríkin um takmörkun á meðaldrægum kjarnorkueldflaugum milli ríkjanna, auk þess sem hann gagnrýndi harkalega áform Bandaríkjastjórnar um að koma á fót eldflaugavarnarkerfi í við landamæri Rússlands í Austur-Evrópu.

Stjórnmálaskýrendur telja að um þessar mundir sé ómögulegt að spá fyrir um hver sé líklegri til að hreppa hnossið, Ívanov eða Medvedev. Pútín hefur gefið það út að hann muni ekki koma með opinbera yfirlýsingu varðandi forsetakosningarnar fyrr en kosningabaráttan hefst fyrir alvöru í desember á þessu ári. Ef Pútín ákveður - eins og margt er farið að benda til - að helsta markmið næsta forseta landsins verði að verja hagsmuni Rússlands gagnvart Vesturlöndum, er ekki ósennilegt að Ívanov verði hans maður.