Undirbúningsnefnd vegna byggingar álsvers á Bakka við Húsavík fundar nú í Reykjavík en í nefndinni eiga sæti fulltrúar Alcoa, sveitarfélagsins Norðurþings og iðnaðarráðuneytisins.

Til fundarins koma meðal annars fulltrúar frá Kanada og Bandaríkjunum. Fundurinn er samkvæmt samkomulagi sem gert var í maí 2006 þegar samþykkt var að gera ýtarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt álver. Þá var miðað við að reisa 250.000 tonna álver í einum áfanga.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að áhugi Alcoa beinist nú að því að fá að reisa stærra álver í einum áfanga eða allt að 350.000 tonna álver sem er af sömu stærð og nú hefur risið á Reyðarfirði. Ekki náðist í Tómas Má Sigurðsson, forstjóra Alcoa vegna, málsins en að sögn Ernu Indriðadóttur, fjölmiðlafulltrúa Alcoa hér á landi, er um hefðbundinn vinnufund að ræða.

Eins og áður sagði hefur verið rætt um að byggja 250.000 tonna álver á Bakka, jafnvel í tveimur áföngum. Þá beindust aðaláhyggjur manna að því hvort næg orka fengist en gert er ráð fyrir að fá nánast alla orkuna frá jarðvarmavirkjunum. Ekki munu vera dæmi þess að jarðvarmi hafi staðið undir orkuöflun svo stórs iðjuvers.

Að sögn Bergs Ágústssonar, sveitastjóra Norðurþings, benda rannsóknir til þess að næg orka sé á svæðinu og þannig hafi  Þeistareykjasvæðið reynst talsvert stærra en talið var í fyrstu. Í fyrstu var talið að það væri 12 til 14 ferkílómetrar en nú er talið að það sé hátt í 50 ferkílómetrar. Einnig er horft til Kröflu-svæðisins og þar fannst gríðarleg orka í borholu sem ekki reyndist unnt að nýta nema að hluta.

Bergur sagðist ekki geta tjáð sig um einstaka þætti málsins en sagði að viðræðurnar hefðu gengið vel til þessa.

En hvað segir Bergur um stærra álver? „Ég sem sveitarstjóri sé ekkert að því þó álverið væri stærra en upphaflaga var gert ráð fyrir. Það væri bara ánægjulegt fyrir okkur.“ Þess má geta að Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa Corp., hefur gefið í skyn að óskastaða væri að fá að byggja jafnstórt álver og á Reyðarfirði.