Snæbjörn Sigurðarson, verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu Norðurþingi, segir að vegna ákvörðunar ESA um að rannsaka samninga PCC við Landsnet og Landsvirkjun ríki óhjákvæmilega ákveðin óvissa um verkefnið. „Það er verið að vinna í því að leysa þetta mál og menn eru frekar bjartsýnir á það takist en það verður að koma í ljós,“ segir Snæbjörn.

Skipulags- og hönnunarvinna vegna byggingar verksmiðjunnar er langt á veg komin en engar framkvæmdir eru hafnar. Nýjustu áætlanir PCC miðuðu að því að hefja jarðvegsframkvæmdir í þessum eða næsta mánuði. Magnús Magnússon, rekstrarráðgjafi PCC á Íslandi, segir að framhaldið ráðist af því hver niðurstaða ESA verði. Núverandi áætlanir geri ráð fyrir að framleiðsla hefjist árið 2017.

Vinnubúðirnar, sem notaðar voru sem starfsmannahús þegar verið var að byggja álverið í Reyðarfirði, verða fluttar á Bakka áður en framkvæmdir hefjast við byggingu kísilsmálmverksmiðjunnar. Þetta eru kanadískar húseiningar, sem í dag eru í eigu Stracta hotels ehf., en það fyrirtæki er í eigu feðganna Hreiðars Hermannssonar og Hermanns Hreiðarssonar.

Feðgarnir hafa þegar byggt eitt hótel úr þessum húseiningum en það var opnað á Hellu síðasta sumar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .