Strætó bs. var meðal þeirra fyrirtækja sem tilnefnd voru til markaðsverðlauna samgöngufyrirtækja á Norðurlöndum. Tilnefninguna fékk Strætó fyrir markaðsherferð sína „33% meira á netinu“ sem auglýsti sölu fargjaldakorta á netinu árið 2011. Samkvæmt tilkynningu frá Strætó sýnir tilnefningin að fyrirtækið er í fremstu röð í rafrænum viðskiptum við viðskiptavini en um 60% af öllum seldum fargjöldum fara í gegnum söluvef fyrirtækisins.

„Fyrirtækið er stolt af því að vera vegið og metið meðal norrænna samgöngufyrirtækja og tilnefnt til verðlauna sem sýna að fyrirtækið stenst alþjóðlegan samanburð,“ segir í tilkynningunni. Sigurvegarinn var Sydtrafik í Danmörku sem hlaut verðlaunin fyrir markaðsherferð sem kynnti umræðutorg um þjónustu Sydtraffik, breytingar á leiðakerfi og SMS miðasölu.