Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Strætó að greiða hópbifreiðafyrirtækinu Teiti Jónassyni ehf. tæplega 205 milljónir króna með skaðabótavöxtum frá 29. mars 2010 til 12. nóvember 2020, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess ber Strætó að greiða Teiti Jónassyni 5,1 milljón í málskostnað.

Málið snýr að útboði Strætó á akstri á fimmtán leiðum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010. Sjö fyrirtækjum var boðin þátttaka í útboðinu sem skiptist í fjóra verkhluta. Tilboði Hagvagna í þrjá verkhluta og Kynnisferða í fjórða verkhlutann, fyrir samtals 987 milljónir króna, var tekið.

Síðar kom í ljós að vagnar Hagvagna uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum og að Hagvögnum voru afhentir vagnar til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Bæði Allrahanda og Teitur Jónasson töldu að meginreglur útboðsréttar hefðu verið brotnar og höfðuðu mál til greiðslu bóta vegna hagnaðarmissis.

Árið 2017 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms um rétt Teits Jónassonar til skaðabóta frá Strætó vegna missis hagnaðar og kostnaðar vegna þátttöku í forvali var viðurkenndur.

Hæstiréttur dæmdi Strætó til að greiða 100 milljónir króna árið 2016 til Allrahanda, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line á Íslandi, vegna sama máls.