Strætó tilkynnti á Twitter síðu sinni og í Strætó-appinu klukkan 14:19 í dag að akstri á öllum leiðum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið hætt. Rétt fyrir klukkan þrjú fengust þær upplýsingar frá stjórnstöð Strætó að einhverjir vagnar væru farnir af stað, en að það gæti tekið allt að klukkutíma fyrir vagnana að ná að halda réttum tímaáætlunum. Þá eru leiðir 7 og 15 í Mosfellsbæ enn stopp, en útlit fyrir að mokstri í Mosfellsbæ verði lokið um fimmleytið.

Þá birti Landspítalinn áminningu til starfsmanna sinna að fara ekki af vaktinni fyrr en sá sem tekur við keflinu sé kominn í hús. Vaktaskipti á spítalanum eru að jafnaði um klukkan 16 svo útlit er fyrir að starfsfólk gæti þurft að vera lengur á vakt ef afleysing kemst ekki í hús vegna veðurs.

Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, segir að mönnun á spítalanum sé trygg og að spítalinn lendi ekki í verulegum vandræðum vegna tímabundinna lokana stofnbrauta og strætóleiða. Það gæti hins vegar haft aukið álag á starfsfólk sem þarf að standa vaktina lengur en ella.