Frammistaða íslenska landsliðsins á Evrópumótinu hefur haft gríðarleg áhrif á þjóð­ ina undanfarnar vikur auk þess sem ljóst er að ýmsir hafa hagnast vel á árangrinum. Þannig hefur Knattspyrnusamband Íslands til að mynda nú þegar tryggt sér að jafnvirði um 1,9 milljarða króna í verðlaunafé frá Evrópska knattspyrnusambandinu. Takist íslenska liðinu að sigra Frakka á sunnudaginn kemur sú upphæð til með að hækka í 2,5 milljarða króna. Þá eru jafnframt ýmis teikn á lofti sem benda til þess að landkynningin sem fylgi frammistöðunni muni hafa umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu landsins og þannig í raun allt landið í heild. Spurðir um fjárhagsleg áhrif á leikmenn landsliðsins segja umboðsmennirnir Ólafur Garðarsson og Sigurður Aðalsteinsson ljóst að árangurinn muni hafa mikil áhrif á þá stráka sem hafa verið að spila vel á mótinu. Þó sé erfitt að segja með einhverri vissu hversu mikil áhrif mótið muni á endanum hafa á verð og laun leikmannanna.

Margt sem getur spilað inn í

„Auðvitað er það fyrst og fremst frammistaða leikmanna sem hefur áhrif á verðmat og þá sérstaklega þegar menn eru að standa sig vel gegn gömlum og grónum fótboltaþjóðum eins og Portúgal og Englandi. Það er hins vegar fleira sem getur haft áhrif eins og til að mynda aldur leikmanna. Ef við undanskiljum markmenn þá er ekki algengt að menn eldri en 30 ára séu keyptir dýrum dómum, nema þeir séu orðnir mikil nöfn. Það eru auðvitað til undantekningar á því en aldurinn dregur úr líkum á góðri sölu getum við sagt,“ segir Ólafur.

Spurður út í framtíðarmöguleika Ragnars Sigurðssonar sem einmitt varð þrítugur á dögunum segir hann að ef hann væri 24 ára þá væri staðan eðli málsins samkvæmt önnur. „Ragnar er hins vegar frábær leikmaður og þó að ég sé ekki hans umboðsmaður þá hef ég bent breskum liðum á hann í mörg ár. Það eru þrátt fyrir það margir um hituna og því oft erfitt að koma sér á framfæri en hann sýndi það náttúrlega í gær að hann er betri en flestir þessir mið- verðir sem við erum að sjá í ensku úrvalsdeildinni.“ Þess ber að geta að áður en blaðið fór í prentun bárust fregnir þess efnis frá Guardian að lið á borð við Liverpool, Tottenham og Leicester hafi nú áhuga á miðverðinum knáa.

Ólafur segir erfitt að svara því hvort einhver af íslensku leikmönnunum nálgist nú leikmenn breska landsliðsins í verði. Segist hann telja að það væri helst Gylfi Þór Sigurðsson sem gæti nálgast slíkar upphæðir, en hann var á sínum tíma keyptur á 10 milljónir punda frá Tottenham til Swansea. „En ef menn ætluðu sér til að mynda að kaupa Ragnar Sigurðsson frá hinu fjársterka rússneska liði Krasnodar þá þyrftu þeir að öllum líkindum að borga á bilinu 5-7 milljónir punda. Hannes Halldórsson hefur jafnframt verið að standa sig gríðarlega vel í markinu og þó að hann sé 32 ára þá gilda aðrir mælikvarð ar varðandi markmenn, þannig að hann á, eins og margir aðrir í liðinu nú, góðan möguleika á að komast í stærra lið.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu blaðsins undir Tölublöð.