Forstjóri Google, Eric Schmidt, segir að mennirnir tveir sem fundu upp Google hafi loksins fullorðnast. Schmidt sagði á árlegum fundi fyrirtækisins að Larry Page og Sergey Brin, hönnuðir leitarvélarinnar, hafi þroskast á undanförnum árum eftir því sem fyrirtækið hefur stækkað.

Tvímenningarnir játuðu samkvæmt frétt Telegraph að vinna þeirra hefði breyst verulega, sérstaklega frá því fyrirtækið var sett á markað fyrir fjórum árum. „Ein breyting er að við höfum nú 10-20 þúsund manns til að hjálpa okkur“ sagði Brin í gríni. „Ég stunda það ekki lengur að vinna alla nóttina eins og þegar við rákum fyrirtækið í bílskúrnum, þegar við vorum bara þrír eða fjórir að vinna alla vinnuna“ sagði hann og vísaði þar til þess þegar fyrirtækið var stofnað í bílskúr í Kaliforníu.

Þrátt fyrir að bæði Brin og Page eigi eignir metnar á meira en 18 milljarða Bandaríkjadala hefur ríkidæmið ekki stigið þeim til höfuðs. Schmidt benti t.d. á, samkvæmt frétt Telegraph, að þrátt fyrir að tvímenningarnir hafi þroskast og auðgast mæti þeir enn í vinnuna í sömu venjulegu gallabuxunum og stuttermabolunum.