Hagnaður Eimskips samstæðunnar eftir skatta var 928 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2011. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 2,1 milljarður króna. Í tilkynningu félagsins segir að afkoman sé umfram væntingar, sem skýrist af innheimtu á útistandandi kröfu að fjárhæð 1 milljarður króna, sem búið varð að færa að fullu niður í bókum félagsins.

„Afkoma af reglulegri starfsemi var hinsvegar undir væntingum og er megin skýring þess kostnaður sem féll á félagið vegna strands Goðafoss í Noregi um miðjan febrúar, sem og 3% almennur samdráttur í flutningamagni í áætlanasiglingum á tímabilinu.“ Segir að strandið á Goðafossi sé með stærri tjónum sem félagið hefur orðið fyrir á síðustu áratugum, en félagið sé vel tryggt. Um 80 milljóna króna beinn kostnaður féll á félagið á fyrsta ársfjórðungi vegna óhappsins.

Gylfi Sigurðsson, segir að það sem valdi félaginu mestum áhyggjum er að magn í áætlanaflutningum er enn að dragast saman milli ára. „Afkoma á fyrsta ársfjórðungi af reglulegri starfsemi er undir okkar væntingum og hefur strandið á Goðafossi þar mikið að segja. Það sem veldur okkur þó mestum áhyggjum er að magn í áætlanaflutningum í flutningakerfum okkar er ennþá að dragast saman á milli ára, sem er ekki í takt við okkar væntingar. Magnið hefur dregist saman bæði á Íslandi og í Færeyjum en magnið í alþjóðlegu flutningsmiðluninni er í góðum vexti,“ segir Gylfi.

„Horfur fyrir árið 2011 gefa því ekki tilefni til mikillar bjartsýni og ekki er fyrirsjáanleg nein aukning á flutningamagni í samanburði við árið 2010. Félagið varð fyrir því óláni að skipið Reykjafoss sem siglir á Norður Ameríku fékk högg á skrúfuna í höfninni í Argentia á Nýfundnalandi í apríl mánuði og þurfti skipið að fara í viðgerð í framhaldi. Þetta óhapp mun hafa einhver óveruleg áhrif á afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi. Það lítur því út fyrir að við séum að horfa fram á enn eitt ár stöðnunar í flutningamagni og því er ljóst að hjól atvinnulífisns eru ekki að fara af stað þrátt fyrir væntingar okkar um annað. Auk þess eiga viðskiptavinir félagsins á Íslandi enn í miklum erfiðleikum með að fjármagna sitt birgðahald, launahækkanir lenda með miklum þunga á fyrirtækjunum á þessu ári, samdráttur er í veltu hjá fjölmörgum viðskiptavinum okkar og lítil sem engin verkefni eru að fara af stað.“

Helstu afkomutölur fyrsta ársfjórðungs 2011, samkvæmt tilkynningu:

Heildarvelta Eimskips samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011 var 14,3 milljarðar ISK (EUR 90,2 m) samanborið við 12,5 milljarða ISK árið 2010. Rekstrarhagnaður (EBITDA) var um 2,1 milljarðar ISK, (EUR 13 m) en var 1,2 milljarðar ISK árið 2010. Hagnaður eftir skatta var 928 milljónir ISK (EUR 5,8 m) en var 202 milljónir ISK árið 2010. Heildareignir félagsins í lok mars voru
45,7 milljarðar ISK (EUR 283 m) og er eiginfjárhlutfallið 59%. Vaxtaberandi skuldir voru 11 milljarðar ISK (EUR 69 m). Flutningamagn samstæðunnar í áætlanasiglingum dróst saman um 3% á fyrsta ársfjórðungi á milli ára en flutningamagn í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun Eimskips jókst um 7% á milli ára á sama tímabili.