Það sem helst kemur í veg fyrir að ný fyrirtæki komist á koppinn á Vestfjörðum er fjármögnun, segir Neil Shiran K. Þórisson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða í samtali við Bæjarins besta . Hann segir oft sex til sjö aðila leita til Atvinnuþróunarfélagsins, sem séu að koma sér af stað í ferðaþjónustu. Í dag séu fimm til sex verkefni í pípunum, þar af tvö til þrjú stór verkefni sem hafi sjáanleg áhrif í ferðaþjónustunni á Vestfjörðum.

„Það sem háir flestum er fjármögnun. Við getum komist svo og svo langt með ráðgjöf, síðan er það sameiginlegt með mörgum að þá vantar eigið fé til að hrinda verkefnum hraðar í framkvæmd. Fólk reiðir sig á Byggðastofnun og aðrar lánastofnanir með fjármagn. Það sem vantar upp á er eigið fé, það vantar í sumum tilfellum sáralítið upp á til að fólk geti komist af stað. Ókosturinn varðandi þróunarstyrki og annað er að ekki eru veittir styrkir í stofnkostnað og rekstur. Það er eiginlega aldrei styrkt. Menn þurfa að kljúfa það að kaupa það sem vantar til að komast af stað, áhöld, tæki og fasteignir. Í mörgum tilfellum strandar þetta á því að menn hafa ekki eigið fjármagn til að klára málið.“