Samkvæmt rannsóknarfyrirtækinu Mergermarket er yfirtaka InBev á Anheuser Busch nýjasta dæmið um samþjöppunarferlið sem nú á sér stað meðal framleiðenda neysluvarnings og til marks um það að erlendir fjárfestar notfæri sér gengisfall Bandaríkjadals og taki yfir þarlend fyrirtæki.

Önnur yfirtaka á neysluvarningsfyrirtæki átti sér stað á dögunum þegar sælgætisframleiðandinn Mars tók yfir Wrigley.

Sérfræðingar Mergermarket segja að bæði viðskiptin sýna að hægt sé að fjármagna strategísk kaup um þessar mundir þrátt fyrir að lítið lífsmark sé meðal þeirra einkafjárfesta sem hafa reitt sig á skuldsettar yfirtökur.

Kaup Anheuser Busch er stærsta strategíska yfirtaka sögunnar sé litið til viðskipta þar sem að reiðufé kemur eingöngu við sögu. Mergermarket fullyrðir að fleiri slík viðskipti séu í burðarliðnum en á þessu ári hafa þau verið sérstaklega algeng meðal framleiðenda neysluvarnings. Verðmæti slíkra viðskipta á þessu ári hafa aukist um 6% frá því í fyrra en þegar litið er til allra fyrirtækja er verðmæti yfirtöku og sameininga 30% minni en í fyrra.