Bandaríska greiningafyrirtækið Stratfor, sem er stundum uppnefnd „skuggaleyniþjónusta Bandaríkjanna” segir að til lengri tíma litið þá gæti Evrópusambandið hagnast mjög á aðild Íslands að sambandinu.

Fram kemur í nýrri greiningu Stratfor að þegar búið verður að endurreisa hagkerfi Íslands þá geti landið jafnvel lagt meira til sambandsins en það þiggur fjárhagslega.

Þrátt fyrir skammvinnt og örlagaríkt strandhögg í bankastarfsemi hafi íslenska hagkerfið verið vel rekið og það hafi mikið fram að leggja til meginlandsins þegar tækni sem gerir það að verkum að hægt verði að flytja út jarðvarma orku hefur litið dagsins ljós.

Möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er gerð ítarleg skil í greiningu Stratfor sem kom út á mánudag. Í greiningunni er það fullyrt að með hliðsjón af því efnahagshruni sem hefur átt sér stað hér á landi sé aðild eini raunhæfi möguleikinn í stöðunni.

Hinsvegar er sagt að til að svo geti orðið verði Ísland að gefa eftir í fiskveiðimálum og sjá til þess að enginn óútkljáð deilumál séu við aðildarríki sambandsins.

Sem  kunnugt er þurfa öll aðildarríki að samþykkja fjölgun að bandalaginu og þar af leiðandi kynnu deilumál á borð við Icesave-reikninga landsbankans að torvelda aðildarviðræður – það er að segja verði ekki búin að leiða deilurnar endanlega til lykta áður en að hugsanlegar viðræður hefjast.

Sérfræðingar segja að fiskveiðimálin geti einnig flækt mögulegar viðræður um aðild, en í greiningunni er ítrekað hversu vasklega íslensk stjórnvöld hafa gengið til verks þegar kemur að umráðum yfir fiskveiðilögsögunni.

Lítil stemning fyrir rússneskum Trójuhest

Að sama skapi er nýlegt „daður” stjórnvalda við Kremlarbændur nefnt til sögunnar og sagt geta orðið þrándur í götu í aðildarviðræðum. Sagt er frá bónum íslenskra stjórnvöld um að rússnesk stjórnvöld veiti þeim lán og sérstaklega er tekið fram að Ólafur R. Grímsson, forseti, hafi á dögunum lagt til að Íslendingar byðu Rússum flugstöð hér á landi til afnota.

Þrátt fyrir þetta telja sérfræðingar Stratfor lánafyrirgreiðslu frá Rússum ekki koma til með að torvelda aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og það sama gildir um óheppileg ummæli frá forseta landsins, en það er tekið fram að embættið sé ekki pólitískt.

En að sama skapi taka sérfræðingar Stratfor fram að aðildarríki Evrópusambandsins muni þurfa að fá gulltryggingu fyrir því að Ísland verði áfram í Atlantshafsbandalaginu sökum hernaðarlegrar mikilvægrar legu landsins.

Það sé afar mikilvægt fyrir hernaðarhagsmuni Breta (og að sama skapi Bandaríkjanna) í ljósi vaxandi hernaðarumsvifa Rússa auk þess sem að þau ríki sem áður tilheyrðu áhrifasvæði Sovétríkjanna en eru nú aðildar að Evrópusambandinu myndu setja sig á móti aðild Íslands ef að þau væru áskynja að ríki væri í raun Trójuhestur rússneskra hagsmuna.