Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum innanlands nam 34,7 milljörðum króna í apríl og jókst um 11% samanborið við apríl í fyrra að því er Rannsóknarsetur verslunarinnar greinir frá.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir helgi að heildarkortaveltan innanlands hafi þó ekki verið lægri síðan 2009, en hún tók kipp eftir að samkomubannið var rýmkað 4. maí síðastliðinn.

Heildarkortavelta Íslendinga innanlands nam 53,1 milljörðum króna og dróst saman um 13,6% að nafnvirði á milli ára. Verslun á netinu tók stórt stökk í aprílmánuði, jókst um 260% á milli ára og var 9% af heildarverslun Íslendinga í mánuðinum.

Aukin heimavera vegna COVID hefur vafalaust ýtt mörgum út í framkvæmdir til heimilisins en kortavelta byggingavöruverslana jókst um þriðjung frá apríl í fyrra og nam alls 2,8 milljörðum króna í apríl síðastliðnum.

Það má leiða að því líkur að þörfin fyrir dægradvöl í samkomubanni hafi haft sitt að segja varðandi aukna eftirspurn eftir raftækjum. Velta í flokki raftækja jókst um 42% milli ára, þar af nam velta í netverslun með raftæki 500 milljónum króna og jókst að nafnvirði um alls 300% samanborið við fyrra ár.

Nær fjórföld netverslun með föt

Minna fór fyrir fatakaupum í apríl en fataverslun dróst saman um 28% milli ára. Mikill vöxtur var þó í netverslun með föt en hún jókst um 279% frá apríl í fyrra. Í kaupum á netinu nam velta flokksins 308 milljónum króna en tæplega 1,2 milljónum króna í búðum.

Mikill samdráttur var í veltu veitingaþjónustu og eldsneytissölu, þar sem hlutfallsleg lækkun í fyrrnefnda flokknum var 42% samanborið við sama mánuð í fyrra. Í eldsneytissölu var samdrátturinn um 31% og minnkuðu eldsneytiskaup um 1,4 milljarða króna á milli ára.

Þá sjást áhrif samkomubannsins vel í veltu lækna- og tannlæknaþjónustu sem dróst saman um 76% að nafnvirði milli ára, sem og snyrti- og heilsustarfsemi hvar veltan var 84% lægri nú en í fyrra.

Erlend kortavelta aldrei lægri að raungildi

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur ekki verið lægri að raungildi í einum mánuði, síðan mælingar hófust hjá Seðlabankanum 2002. Heildarvelta erlendra korta nam 949 milljónum króna í apríl og dróst saman um 93,3% samanborið við fyrra ár.

Samdráttur var í öllum flokkum sem Rannsóknasetur verslunarinnar birtir en mestur var samdráttur í menningartengdri þjónustu. Eitthvað minni samdráttur var á veltu erlendra korta í verslunum, þá sérstaklega í dagvöru- og stórmörkuðum.

Veltan í þeim flokk nam alls 167,6 milljónum króna, dróst saman um 74% á milli ára. Í flokknum önnur verslun nam veltan alls 241 milljónum króna, undir þann flokk falla t.d. byggingavöruverslanir, raf- og heimilistækjaverslanir og verslanir með heimilisbúnað.

Hæst var kortavelta eftir þjóðernum á bandarísk kort eða alls 241 milljónum króna en var á sama tíma í fyrra alls 4,45 milljónum króna. Velta kínverskra korta var einungis 11,4 milljónum króna og velta breskra korta var 165 milljónum króna í apríl síðastliðnum.