Ástæða þess að FME tók Straum yfir í dag er sú að bankann vantaði 18 milljónir evra til að geta staðið skil á skuldbindingum í dag. Þetta er jafnvirði um 2,5 milljarða króna. Skuldbindingarnar nema 33 milljónum evra en bankinn hefur aðeins handbært fé upp á 15,3 milljónir evra. Þetta kemur fram í bréfi sem FME ritar vegna ákvörðunar um yfirtöku Straums.

Lausafjárstaðan veiktist um 1 milljarð evra í fyrra

Lausafjárstaða bankans um áramót var 388 milljónir evra og hafði lækkað um rúmlega 1 milljarð evra á árinu 2008. Eiginfjárstaðan, CAD, hafði lækkað úr 23,7% í 16,9% á yfir árið, en var enn tvöföld það sem lögboðið er, eins og forstjóri bankans benti á í tilkynningu með ársuppgjöri.

Í ársuppgjörinu, sem var birt 4. febrúar, sagði um horfurnar að á fyrsta fjórðungi þessa árs mundi Straumur einbeita sér að því að minnka efnahagsreikning bankans frekar og verja fjárhagsstöðu hans og tryggja lausafjárstöðuna.