Fjárfestingafélagið Straumborg, sem stýrt er af Jóni Helga Guðmundssyni, hefur samþykkt að kaupa rússneska bankann Fineko Bank. Jón Helgi staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hann vildi ekki gefa upp kaupverðið og tók fram að ekki væri um stóran banka að ræða.

Hann sagði einnig að Straumborg hefði fjármagnað kaupin. "Straumborg er hraust félag," sagði Jón Helgi. "Við tökum þetta að okkur og ætlum okkur að byggja upp bankann."

Straumborg keypti 51% hlut í lettneska bankanum Lateko Banka í janúar á þessu ári, en félög tengd Jóni Helga og Byko hafa verið með starfsemi í Lettlandi frá árinu 1993. Jón Helgi sagði að Fineko og Lateko yrðu ekki sameinaðir þar sem áhætta á óstöðuleika í Rússlandi væri mun meiri en í Lettlandi. Bankakrísa reið yfir Rússland árið 1998 og fjárfestar eru enn varir um sig eftir aðför rússneskra stjórnvalda að olíufyrirtækinu Yukos og fyrrverandi stjórnarformanni þess, Mikhail Khodorkovsky.

Jón Helgi sagði áætlað að breyta nafni bankans í Norvik Bank, en annað fjárfestingafélag í eigu Jóns Helga er kallað Norvik, sem rekur meðal annars Byko-verslanirnar og hefur fjárfest í timburverksmiðjum í Rússlandi og í Bretlandi. Starfsmenn rússneska bankans eru um 60 og bankinn er smásölubanki. Bankinn hefur ekki leyfi til að taka á móti innlánum einstaklinga og fjármagnar sig með innlánum frá fyrirtækjum.