„Við gerðum árið 2009 ákveðinn kyrrstöðusamning við kröfuhafa og höfum verið að vinna samkvæmt því,“ segir Jón Helgi Guðmundsson, sem löngum hefur verið kenndur við Byko, um félagið Straumborg ehf. Héraðsdómur Reykjaness hefur veitt félaginu heimild til að leita nauðasamnings. Félagið var fjölskyldufyrirtæki Jóns Helga. Það hélt utan um eignarhlut í Kaupþingi, hluti í lettneska bankanum Norvik og fjárfestingar í olíu- og orkuiðnaði.

Fundur verður haldinn með lánardrottnum, sem eiga atkvæðisrétt um samningsfrumvarp Straumborgar, 15. maí þar sem greitt verður atkvæði um nauðasamningafrumvarpið.

Jón Helgi segir málefni félagsins í ákveðnu ferli sem sé í algjöru samráði við lánardrottna þess. Á meðallánardrottna eru Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki, Glitnir auk erlendra lánastofnana.

Félagið hefur ekki skilað uppgjöri frá hruni. Síðasta uppgjör fyrirtækisins er þó til frá árinu 2008. Þá skuldaði Straumborg um 30 milljarða króna í lok ársins. Eigið fé félagsins var jákvætt en sú staða breyttist hratt á árinu 2009. Síðan þá hafa eignir félagsins í olíu- og orkugeiranum og lettneska bankanum lækkað verulega í verði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.