Straumborg ehf., félag Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, var í dag dæmt til að greiða Glitni tæpa þrjá milljarða króna, en á móti var Glitnir dæmdur til að afhenda 3,2 milljónir hluta í Kaupþingi.

Í málinu var tekist á um túlkun á framvirkum samningi milli Glitnis og Straumborgar frá janúar 2008 sem fól í sér að á uppgjörsdegi myndi Straumborg greiða Glitni fyrirfram ákveðna fjárhæð og fá í staðinn fyrirfram ákveðið magn hlutbréfa í Kaupþingi.

Til að gera langa sögu stutta var samningurinn framlengdur nokkrum sinnum þar til bankahrunið haustið 2008 setti allt í uppnám hér á landi. Málsaðilar hafa m.a. deilt um það hvort Glitnir hafi einhliða sagt upp samningnum með almennri tilkynningu til viðskiptavina um það hvernig farið yrði með uppgjör afleiðusamninga. Þá hélt Straumborg því fram að vegna falls Kaupþings hafi forsendur fyrir samningnum brostið.

Þrátt fyrir að dómurinn hafi fallist á þá kröfu Glitnis að Straumborg bæri að greiða tæpa þrjá milljarða króna gegn afhendingu hlutabréfanna var þetta þrautavarakrafa Glitnis. Aðalkrafan var sú að Straumborg bæri að greiða þrjá milljarða króna án þess að fá nokkuð í staðinn. Byggði Glitnir kröfuna á því að honum hefði verið heimilt að beita skuldajöfnuði.

Dómurinn féllst ekki á þetta og gerði aðilum í raun að uppfylla ákvæði samningsins með annars vegar greiðslu Straumborgar og hins vegar afhendingu Glitnis á hlutabréfunum.