„Stundum upplifir maður það í pólitík og líklega bara í lífinu almennt að það er eitthvað að gerast, það liggur eitthvað í loftinu, það eru einhver straumhvörf. Mér fannst það liggja í loftinu vorið 1994. Það var mikill meðbyr og það voru ákveðin tímamót.“ Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þegar hún lítur tuttugu ár aftur í tímann, en árið 1994 stóð hún í kosningabaráttu fyrir R-listann í Reykjavík og bar sigur úr býtum. Ingibjörg segist hafa fundið fyrir þessum straumhvörfum tvisvar.

„Það var fyrst árið 1982 þegar Kvennalistinn kom fram og svo aftur í borgarstjórnarkosningunum árið 1994. Það var ákveðin pólitík í borginni árið 1994 sem var ekki í takt við tímann. Maður fann fyrir því að sú pólitík var að renna sitt skeið á enda. Borgarkerfið var mjög karlstýrt kerfi og áherslurnar sem þar réðu ríkjum voru á þann veg að borgin var meira stjórnvald heldur en þjónustukerfi. Þessi tími var liðinn þegar ég var komin í kosningabaráttuna.“

Skólamál voru í ólestri
Spurð að því hvaða mál hún setti efst á oddinn segir Ingibjörg að það hafi verið þrjú mál sem hún taldi vera stærst. „Í fyrsta lagi voru það leikskólamálin sem voru í algjörum ólestri í borginni. Dagvist Reykjavíkur, eins og hún hét þá, hún var ekki þjónustustofnun - hún var einhvers konar synjunarstofnun. Ég fékk sjálf að upplifa það á eigin skinni, að ef maður var giftur eða í sambúð og ekki í námi þá átti maður ekki kost á leikskólaþjónustu nema bara hálfan daginn þegar börn voru orðin fjögurra til fimm ára. Þetta var bara algjörlega úr takti við veruleika reykvískra fjölskyldna. Sama hafði maður upplifað með grunnskólann. Það eru flestir búnir að gleyma því að það var alltaf gert ráð fyrir því að einhver væri heima í hádeginu til þess að taka á móti börnunum þegar þau voru búin í skólanum. Það var bara ekki veruleikinn fyrir flestar fjölskyldur í Reykjavík. Ég talaði stundum bæði í gamni og alvöru um druslubílarallí. Það var þegar að ungu fjölskyldurnar voru að þeytast um miðjann daginn að selflytja börnin úr leikskóla til dagmömmu eða til afa og ömmu. Maður sá þetta þegar maður var að keyra um í hádeginu - foreldra við stýrið og börn í aftursætinu sem verið var að flytja. Svo var það líka ærið verk að fjölga konum í borgarstjórn og stjórnkerfi borgarinnar. Þetta voru þau mál sem ég brann mest fyrir á þessum tíma,“ segir Ingibjörg.

Lengri útgáfu af viðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur má lesa í afmælisriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum.