Bandaríska streymisveitan Netflix tekst nú á við nokkrar af mestu áskorunum í sögu félagsins. Í uppgjöri fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung kom fram að áskrifendum hefði fjölgað um 2,8 milljónir sem var rúmlega 40% undir áætlunum fyrirtækisins. Á sama tíma horfir fyrirtækið upp á að missa sumt af sínu vinsælasta efni yfir á væntanlegar streymisveitur samkeppnisaðila en aðkeypt efni stendur undir 63% af áhorfi í Bandaríkjunum.

Hagnaður Netflix á fjórðungnum nam 271 milljón dollara og dróst saman um 29% frá sama tímabili í fyrra. Afkoman var þó eilítið betri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir þar sem hagnaður á hlut nam 60 centum á meðan meðaltal greiningaraðila hafði gert ráð fyrir 56 centum. Það skal þó tekið fram að hagnaður félagsins er sáralítill miðað við markaðsvirði félagsins sem var á mánudag um 137 milljarðar dollar og er V/H hlutfall síðustu fjögurra ársfjórðunga um 120 sem þýðir að markaðsvirðið er um 120 sinnum hærra en hagnaður félagsins á tímabilinu. Tekjur Netflix á síðasta ársfjórðungi námu 4,92 milljörðum dollara og voru í samræmi við meðaltal greiningaraðila sem hljóðaði upp á 4,93 milljarða dollara.

Þrátt fyrir að rekstrarárangur Netflix hafi verið í takt við væntingar markaðsaðila er ekki sömu sögu að segja af notendatölum fyrirtækisins. Áskrifendur fyrirtækisins eru nú um 151,5 milljónir og fjölgaði um 2,8 milljónir á fjórðungnum. Fjölgun áskrifenda á heimsvísu var langt undir meðaltali greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir aukningu upp á 4,8 milljónir og enn lengra frá áætlunum fyrirtækisins sjálfs sem hafði gert ráð fyrir fimm milljónum nýrra áskrifenda. Er þetta mesta frávik frá spá um alþjóðlega áskrifendur í sögu fyrirtækisins þó þetta hafi verið í þriðja sinn á síðustu fjórum árum þar sem fjölgun áskrifenda er undir áætlunum.

Til að bæta gráu ofan á svart þá fækkaði bandarískum áskrifendum fyrirtækisins um 126.000 á meðan greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir aukningu upp á 352.000. Var þetta í fyrsta sinn í átta ár sem Netflix tapar áskrifendum í Bandaríkjunum. Áskrifendur fyrirtækisins eru nú um 151,6 milljónir,  60,1 milljón þeirra eru í Bandaríkjunum og 91,5 milljónir í öðrum löndum. Áskrifendum fjölgaði um 21,9% á síðustu tólf mánuðum en þeim hafði fjölgað um 25,6% á sama tímabili fyrir ári síðan. Þá er einnig áhugavert að framlegð af bandarískum áskrifendum er mun hærri en af alþjóðlegum áskrifendum þó þeir séu um 30 milljónum færri í Bandaríkjunum. Á fyrstu sex mánuðum ársins námu tekjur af bandarískum áskrifendum um 4,37 milljörðum dollara og var framlegð af þeim tekjum um 1,56 milljarðar dollara eða 35,8%. Á sama tíma námu tekjur af alþjóðlegum áskrifendum 4,91 milljarði dollara en framlegðin var hins vegar 690 milljónir dollara eða 14%. Þess ber þó að geta að framlegðarhlutfall Netflix hefur farið batnandi en á síðasta ári var það 33,8% fyrir Bandaríkjamarkað en 8,5% fyrir markaði utan Bandaríkjanna.

Það er óhætt að segja að fjárfestar hafi tekið illa í uppgjör Netflix en hlutabréf félagsins féllu um tæp 11% á fimmtudag eftir að uppgjörið var birt og hafði við lokun markaða á mánudag lækkað um önnur 5%. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 15% það sem af er ári en hafði hækkað um tæp 40% frá byrjun árs fram að birtingu uppgjörsins.

Hærra verð og vöntun á efni

Að sögn stjórnenda Netflix var vöntun á nýju, vinsælu efni á fjórðungnum ein af ástæðum þess að fjölgun áskrifenda var undir væntingum. Stjórnendur fyrirtækisins búast þó við að ný þáttaröð af Stranger Things og The Crown og lokaþáttaröð Orange is the New Black muni lyfta áskriftartölum á þriðja ársfjórðungi þar sem gert er ráð fyrir sjö milljónum nýrra áskrifenda.

Þá kom einnig fram að verðhækkanir á áskriftum hafa einnig haft áhrif en Netflix hefur nú byrjað að hækka verð eins og áskrifendur streymisveitunnar hafa eflaust tekið eftir. Verð á hefðbundinni áskrift var á hækkað á fjórðungnum úr 10,99 dollurum í 12,99 dollara fyrir einn mánuð auk þess sem verð í Evrópu var hækkað úr 10,99 evrum í 11,99 evrur. Þess má geta að verðhækkanirnar munu taka gildi hér á landi í næsta mánuði. Minni vöxtur á tímabilinu náði til allra markaða fyrirtækisins en áhrifin voru þó meiri á þeim svæðum þar sem verð var hækkað á fjórðungnum. Því til viðbótar nefndu stjórnendur að sú staðreynd að áskrifendum hafi fjölgað um 9,6 milljónir á fyrsta ársfjórðungi hafi einfaldlega tekið af vexti á öðrum ársfjórðungi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .