Enginn formlegur frestur var veittur Straumi til þess að ljúka við fjármögnun á kaupum á húsnæði Orkuveitunnar, samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Bjarnasyni forstjóra OR.

Straumur bauð 5,1 milljarð í húsnæðið sem er að Bæjarhálsi. Tilboðið var gert í byrjun árs í nafni óstofnaðs félags og var stefnt að því að ljúka málinu áður en fyrsti ársfjórðungur væri á enda. Hins vegar hefur Straumi fjárfestingabanka ekki tekist að finna fjárfesta sem gætu tekið þátt í fjármögnun sjóðs sem myndi kaupa.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir æskilegt að málin myndu ganga hraðar fyrir sig. Hins vegar sé ekkert við þessum töfum að gera. Hann minnir á að það hafi tekið eitt og hálft ár að selja Perluna.

Viðskiptablaðið hefur gert ítarlegar tilraunir til að ná í Jakob Ásmundsson, forstjóra Straums, en án árangurs.